Eru fjárfestar velkomnir? Ólafur Stephensen skrifar 19. júlí 2010 09:59 Það er með nokkrum ólíkindum að stjórnvöld í ríki, sem þarf eins nauðsynlega á erlendri fjárfestingu að halda og Ísland, skuli leggja jafnmikið á sig og raun ber vitni til að hrekja erlenda fjárfesta frá landinu. Síðustu vendingar í Magma-málinu eru dæmi um slíkt. Vinstri græn vilja stöðva kaup fyrirtækisins á HS orku með öllum tiltækum ráðum; nota peninga skattgreiðenda til að ganga inn í kaupin, rifta samningum og þar fram eftir götunum. Hlaupið var upp til handa og fóta út af "nýjum" upplýsingum um sænska dótturfyrirtæki Magma, sem höfðu legið fyrir misserum saman. Þarna er ekki einvörðungu annar stjórnarflokkurinn að reyna að breyta reglunum eftir á og hrekja burt erlendan fjárfesti, sem hefur ákveðið að leggja mikla peninga í atvinnustarfsemi á Íslandi. Þar er líka verið að senda öðrum erlendum fjárfestum, sem hafa áhuga á Íslandi, skilaboð um að betra sé að þeir beini athygli sinni annað. Að sumu leyti hefur málið verið rætt út frá forms- og aukaatriðum. Grundvallarspurningin, sem stjórnmálamenn þurfa að svara, er auðvitað hvort þeir vilji erlenda fjárfestingu inn í efnahagslífið. Ef þeir vilja hana, útbúa þeir lagaramma sem opnar fyrir hana og hvetur til hennar. Það eru hreinar og klárar blekkingar að leggjast gegn fjárfestingu Magma á þeim forsendum að verið sé að selja auðlindir þjóðarinnar. HS orka á engar auðlindir; þær eru í opinberri eigu og má ekki selja þær samkvæmt nýlegri löggjöf. HS orka á eingöngu nýtingarrétt og greiðir fyrir hann. Kannski er það stefna VG að hrekja burt alla erlenda fjárfesta sem vilja kaupa í fyrirtækjum sem nýta auðlindir landsins með einhverjum hætti. Þá er hætt við að fáir verði eftir. Á Íslandi eiga með réttu að vera mörg tækifæri fyrir erlenda fjárfesta. Mörg góð fyrirtæki, sem hafa lent í skuldavanda eða eigendur þeirra lent í erfiðleikum, eru og verða til sölu. Ísland vantar ekki aðeins fjármagn inn í þessi fyrirtæki; það vantar líka fjölbreytilegan eigendahóp atvinnulífsins. Við viljum ekki að atvinnulífið verði aftur í eigu fáeinna innlendra viðskiptablokka. Fjárfestar meta ýmis atriði þegar þeir ákveða hvort eigi að fjárfesta í öðru landi. Þeir reyna að forðast of mikla áhættu. Í tilviki Íslands eru ýmsir áhættuþættir umfram það sem gerist í nágrannalöndunum, til dæmis óstöðugur gjaldmiðill og sveiflukennt hagkerfi. Í flestum vestrænum ríkjum er pólitískur óstöðugleiki ekki áhættuþáttur. Nú er hins vegar svo komið að erlendir fjárfestar eru sumir hverjir farnir að setja dynti ríkisstjórnarinnar í efsta sæti áhættuþáttanna, þegar þeir skoða hvort fjárfesta eigi á Íslandi. Þeir hafa áhyggjur af því að stjórnvöld hafi almennt lítinn áhuga á erlendri fjárfestingu og séu líkleg til að hræra í regluverkinu til að fæla erlend fyrirtæki frá. Er þetta það sem við þurfum á að halda? Er ekki að verða tímabært að ríkisstjórnin tali skýrt um stefnu sína gagnvart erlendum fjárfestingum? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Það er með nokkrum ólíkindum að stjórnvöld í ríki, sem þarf eins nauðsynlega á erlendri fjárfestingu að halda og Ísland, skuli leggja jafnmikið á sig og raun ber vitni til að hrekja erlenda fjárfesta frá landinu. Síðustu vendingar í Magma-málinu eru dæmi um slíkt. Vinstri græn vilja stöðva kaup fyrirtækisins á HS orku með öllum tiltækum ráðum; nota peninga skattgreiðenda til að ganga inn í kaupin, rifta samningum og þar fram eftir götunum. Hlaupið var upp til handa og fóta út af "nýjum" upplýsingum um sænska dótturfyrirtæki Magma, sem höfðu legið fyrir misserum saman. Þarna er ekki einvörðungu annar stjórnarflokkurinn að reyna að breyta reglunum eftir á og hrekja burt erlendan fjárfesti, sem hefur ákveðið að leggja mikla peninga í atvinnustarfsemi á Íslandi. Þar er líka verið að senda öðrum erlendum fjárfestum, sem hafa áhuga á Íslandi, skilaboð um að betra sé að þeir beini athygli sinni annað. Að sumu leyti hefur málið verið rætt út frá forms- og aukaatriðum. Grundvallarspurningin, sem stjórnmálamenn þurfa að svara, er auðvitað hvort þeir vilji erlenda fjárfestingu inn í efnahagslífið. Ef þeir vilja hana, útbúa þeir lagaramma sem opnar fyrir hana og hvetur til hennar. Það eru hreinar og klárar blekkingar að leggjast gegn fjárfestingu Magma á þeim forsendum að verið sé að selja auðlindir þjóðarinnar. HS orka á engar auðlindir; þær eru í opinberri eigu og má ekki selja þær samkvæmt nýlegri löggjöf. HS orka á eingöngu nýtingarrétt og greiðir fyrir hann. Kannski er það stefna VG að hrekja burt alla erlenda fjárfesta sem vilja kaupa í fyrirtækjum sem nýta auðlindir landsins með einhverjum hætti. Þá er hætt við að fáir verði eftir. Á Íslandi eiga með réttu að vera mörg tækifæri fyrir erlenda fjárfesta. Mörg góð fyrirtæki, sem hafa lent í skuldavanda eða eigendur þeirra lent í erfiðleikum, eru og verða til sölu. Ísland vantar ekki aðeins fjármagn inn í þessi fyrirtæki; það vantar líka fjölbreytilegan eigendahóp atvinnulífsins. Við viljum ekki að atvinnulífið verði aftur í eigu fáeinna innlendra viðskiptablokka. Fjárfestar meta ýmis atriði þegar þeir ákveða hvort eigi að fjárfesta í öðru landi. Þeir reyna að forðast of mikla áhættu. Í tilviki Íslands eru ýmsir áhættuþættir umfram það sem gerist í nágrannalöndunum, til dæmis óstöðugur gjaldmiðill og sveiflukennt hagkerfi. Í flestum vestrænum ríkjum er pólitískur óstöðugleiki ekki áhættuþáttur. Nú er hins vegar svo komið að erlendir fjárfestar eru sumir hverjir farnir að setja dynti ríkisstjórnarinnar í efsta sæti áhættuþáttanna, þegar þeir skoða hvort fjárfesta eigi á Íslandi. Þeir hafa áhyggjur af því að stjórnvöld hafi almennt lítinn áhuga á erlendri fjárfestingu og séu líkleg til að hræra í regluverkinu til að fæla erlend fyrirtæki frá. Er þetta það sem við þurfum á að halda? Er ekki að verða tímabært að ríkisstjórnin tali skýrt um stefnu sína gagnvart erlendum fjárfestingum?