Körfubolti

Boston Celtics getur unnið átjánda NBA-meistaratitilinn í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP

Boston Celtics getur tryggt sér NBA-meistaratitilinn í annað skipti á þremur árum og í 18. skipti frá upphafi þegar liðið sækir Los Angeles Lakers heim í sjötta leik liðanna í lokaúrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta en leikurinn fer fram í nótt.

Boston-liðið hefur unnið tvo síðustu leikina sem báðir fóru fram á heimavelli þeirra í Boston en síðustu tveir leikirnir fara fram í Los Angeles og verða Lakers-menn að vinna þá báða ef þeir ætla að vinna titilinn annað árið í röð.

Vinni Boston leikinn í kvöld verður liðið búið að slá út þau þrjú lið sem voru með besta árangur í deildarkeppninni í vetur.

Boston-liðið sló út Cleveland Cavaliers (1. sæti) út í undanúrslitum Austurdeildar, sló Orlando Magic (2. sæti) út í úrslitum Austurdeildar og væri síðan að vinna lið Los Angeles Lakers í lokaúrslitum en Kobe Bryant og félagar voru með þriðja besta árangurinn í deildarkeppninni í vetur.

Leikur Los Angeles Lakers og Boston Celtics hefst klukkan eitt eftir miðnætti og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport eins og allir aðrir leikir í úrslitaeinvíginu.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×