Falskar vonir Ólafur Þ. Stephensen skrifar 14. október 2010 06:00 Einhverra hluta vegna hafa hugmyndir um almenna skuldaniðurfellingu skotið upp kollinum á ný, meira en ári eftir að þær voru slegnar af og taldar óraunhæfar. Ríkisstjórnin leikur nú eitthvert skrýtið leikrit með stjórnarandstöðunni og hagsmunasamtökum, þar sem látið er eins og það komi til greina að færa niður skuldir fólks um 18%. Ekkert vit er í þeirri leið, eins og raunar er margbúið að færa rök fyrir, en staðfestist enn frekar með þeim upplýsingum, sem bætzt hafa við að undanförnu. Almenn skuldaniðurfelling myndi koma þeim bezt, sem þurfa sízt á henni að halda, þ.e. fólki sem tók hæstu lánin og skuldar mikið en hefur háar tekjur og á jafnvel miklar eignir á móti og getur vel staðið undir afborgunum af lánunum sínum. Aðgerðin nýttist ekki þeim sem verst standa, því að þótt 18% yrðu slegin af láninu, myndi greiðslubyrðin af húsnæðisláni til áratuga ekki léttast svo mikið að það skipti sköpum fyrir þá verst settu. Frá upphafi hefur verið bent á að leið flatrar skuldaniðurfellingar yrði gríðarlega dýr - og það er alltaf einhver sem borgar það verð. Talið er að 18% lækkun kosti á bilinu 220-230 milljarða króna. Þann kostnað mun almenningur (fólkið sem átti að hjálpa með skuldaniðurfellingunni) greiða sjálfur, með einum eða öðrum hætti. Rökin um að búið sé að gera ráð fyrir afskriftum í efnahagsreikningi bankanna halda ekki. Af hverju ættu kröfuhafar að fallast á að gefa eftir skuldir, sem allar líkur eru á að innheimtist að óbreyttu? Skattgreiðendur yrðu væntanlega að bæta bönkunum tjónið. Íbúðalánasjóður getur heldur ekki staðið undir afskriftum lána og færi lóðbeint á hausinn, nema skattgreiðendur hlypu undir bagga og/eða lánveitendur sjóðsins, lífeyrissjóðir og bankar, felldu niður skuldir sjóðsins. Það kæmi svo aftur í bakið á skattgreiðendum og lífeyrisþegum. Niðurstaðan af almennri skuldaniðurfellingu væri með öðrum orðum bæði óréttlát (af því að fólk sem þyrfti ekki á því að halda fengi milljónir slegnar af lánunum sínum) og leiddi til skattahækkana eða enn meiri niðurskurðar á ríkisútgjöldum. Nóg er nú samt. Skuldavandinn er vissulega fyrir hendi. Allir skulda meira en þeir gerðu og bera þyngri greiðslubyrði. En meirihlutinn ræður við það. Hinn raunverulegi vandi er afmarkaður við minnihluta heimilanna í landinu. Í gær birtust tölur um að 20% heimila skulda meira en sem nemur fasteignamati eignarinnar. Samtals skuldar fimmtungur heimila nærri helming af veðtryggðum skuldum. Þetta eru heimilin, sem eru verst sett og stjórnvöld eiga að einbeita sér að því að finna lausnir á vanda þeirra. Mörg úrræði eru þegar í boði, en það einkennilega er að samkvæmt könnun umboðsmanns skuldara hefur stór hluti þeirra allra verst settu, sem eru að fara að missa eignir sínar á nauðungaruppboð, ekki nýtt sér nein þeirra. Kannski er það vegna þess að fólk vonar enn að skuldir þess verði strikaðar út með einföldu pennastriki. Ríkisstjórnin á alls ekki að ýta undir falsvonir fólks um almenna skuldaniðurfellingu. Menn eiga að einbeita sér að vanda þeirra sem þurfa raunverulega á hjálp að halda og fella tjaldið á þetta leikrit í Þjóðmenningarhúsinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Einhverra hluta vegna hafa hugmyndir um almenna skuldaniðurfellingu skotið upp kollinum á ný, meira en ári eftir að þær voru slegnar af og taldar óraunhæfar. Ríkisstjórnin leikur nú eitthvert skrýtið leikrit með stjórnarandstöðunni og hagsmunasamtökum, þar sem látið er eins og það komi til greina að færa niður skuldir fólks um 18%. Ekkert vit er í þeirri leið, eins og raunar er margbúið að færa rök fyrir, en staðfestist enn frekar með þeim upplýsingum, sem bætzt hafa við að undanförnu. Almenn skuldaniðurfelling myndi koma þeim bezt, sem þurfa sízt á henni að halda, þ.e. fólki sem tók hæstu lánin og skuldar mikið en hefur háar tekjur og á jafnvel miklar eignir á móti og getur vel staðið undir afborgunum af lánunum sínum. Aðgerðin nýttist ekki þeim sem verst standa, því að þótt 18% yrðu slegin af láninu, myndi greiðslubyrðin af húsnæðisláni til áratuga ekki léttast svo mikið að það skipti sköpum fyrir þá verst settu. Frá upphafi hefur verið bent á að leið flatrar skuldaniðurfellingar yrði gríðarlega dýr - og það er alltaf einhver sem borgar það verð. Talið er að 18% lækkun kosti á bilinu 220-230 milljarða króna. Þann kostnað mun almenningur (fólkið sem átti að hjálpa með skuldaniðurfellingunni) greiða sjálfur, með einum eða öðrum hætti. Rökin um að búið sé að gera ráð fyrir afskriftum í efnahagsreikningi bankanna halda ekki. Af hverju ættu kröfuhafar að fallast á að gefa eftir skuldir, sem allar líkur eru á að innheimtist að óbreyttu? Skattgreiðendur yrðu væntanlega að bæta bönkunum tjónið. Íbúðalánasjóður getur heldur ekki staðið undir afskriftum lána og færi lóðbeint á hausinn, nema skattgreiðendur hlypu undir bagga og/eða lánveitendur sjóðsins, lífeyrissjóðir og bankar, felldu niður skuldir sjóðsins. Það kæmi svo aftur í bakið á skattgreiðendum og lífeyrisþegum. Niðurstaðan af almennri skuldaniðurfellingu væri með öðrum orðum bæði óréttlát (af því að fólk sem þyrfti ekki á því að halda fengi milljónir slegnar af lánunum sínum) og leiddi til skattahækkana eða enn meiri niðurskurðar á ríkisútgjöldum. Nóg er nú samt. Skuldavandinn er vissulega fyrir hendi. Allir skulda meira en þeir gerðu og bera þyngri greiðslubyrði. En meirihlutinn ræður við það. Hinn raunverulegi vandi er afmarkaður við minnihluta heimilanna í landinu. Í gær birtust tölur um að 20% heimila skulda meira en sem nemur fasteignamati eignarinnar. Samtals skuldar fimmtungur heimila nærri helming af veðtryggðum skuldum. Þetta eru heimilin, sem eru verst sett og stjórnvöld eiga að einbeita sér að því að finna lausnir á vanda þeirra. Mörg úrræði eru þegar í boði, en það einkennilega er að samkvæmt könnun umboðsmanns skuldara hefur stór hluti þeirra allra verst settu, sem eru að fara að missa eignir sínar á nauðungaruppboð, ekki nýtt sér nein þeirra. Kannski er það vegna þess að fólk vonar enn að skuldir þess verði strikaðar út með einföldu pennastriki. Ríkisstjórnin á alls ekki að ýta undir falsvonir fólks um almenna skuldaniðurfellingu. Menn eiga að einbeita sér að vanda þeirra sem þurfa raunverulega á hjálp að halda og fella tjaldið á þetta leikrit í Þjóðmenningarhúsinu.