Körfubolti

NBA: Líflína hjá Orlando Magic

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Dwight Howard stelur boltanum af Paul Pierce í nótt.
Dwight Howard stelur boltanum af Paul Pierce í nótt. AP
Strákarnir í Orlando Magic björguðu andlitinu í úrslitarimmunni við Boston Celtics með því að klóra í bakkann í nótt. Eftir 96-92 sigur í framlengdum leik er staðan í einvíginu 3-1 fyrir Boston. Leikurinn var skemmtilegur áhorfs þar sem bæði lið gerðu mörg mistök og sýndu frábær tilþrif. Dwight Howard skoraði 32 stig fyrir Orlando og tók 16 fráköst á meðan Jameer Nelson sallaði niður 23 stigum og gaf 9 stoðsendingar. Paul Pierce skoraði 32 stig fyrir Boston og tók 9 fráköst og Ray Allen skoraði 22. Leikurinn var jafn nánast allan tímann. Orlando var 32-26 yfir eftir fyrsta leikhluta og Boston var svo fjórum stigum yfir í hálfleik, 47-51. Einu stigi munaði á liðunum fyrir síðasta leikhlutann sem var æsispennandi. Pierce jafnaði metin í 86-86 þegar rúm mínúta var eftir þegar hann keyrði að körfunni, skoraði og fékk víti að auki. Rondo stal svo boltanum fyrir Boston en hvorugt liðið náði að skora meira í leikhlutanum, Pierce og Nelson klikkuðu báðir á skotum. Í framlengingunni hafði Orlando svo betur. Það tók reyndar helming hennar til að fá fyrstu stigin þegar Nelson skoraði þriggja stiga körfu, og hann gerði svo aðra í næstu sókn eftir að Boston hafði mistekist að skora. Tvær risakörfur hjá kappanum. Allen svaraði með tveimur þriggja stiga körfum en í millitíðinni skoraði Howard. 94-92 og rúm mínúta eftir. Howard skoraði aftur, 96-92, og Boston skoraði ekki meira þrátt fyrir nokkur skot. Orlando gerði vel í að klára leikinn en þarf nánast kraftaverk til að gera seríuna spennandi. Þó er aldrei að vita ef liðið vinnur fimmta leikinn, sem ætti að vera æsispennandi líka.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×