Körfubolti

NBA: Kobe fór á kostum í seinni hálfleik

Elvar Geir Magnússon skrifar

Los Angeles Lakers vann útisigur á New Jersey Nets 99-92 í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Kobe Bryant átti flottan leik en hann skoraði 25 stig í seinni hálfleiknum og alls 32 stig í leiknum.

Lamar Odom var með 22 stig fyrir Lakers en stigahæstur hjá New Jersey var Brook Lopez sem skoraði 25 stig. Lakers hefur þó aðeins unnið 6 af síðustu 11 leikjum en New Jersey hefur tapað sjö í röð.

Leikmenn New York Knicks eru sjóðheitir en þeir unnu sinn áttunda leik í röð þegar þeir lögðu Denver Nuggets 129-125 í Madison Square Garden. Þetta var áttundi sigur liðsins í röð en það er í fyrsta sinn í sextán ár sem liðið nær svoleiðis skriði.

Amare Stoudemire var stigahæstur hjá New York en hann gerði 30 stig, þar af 24 í seinni hálfleiknum. Wilson Chandler skoraði 27 stig. Carmelo Anthony var með 31 stig fyrir Denver en Nene skoraði 26

25 stig frá Chris Paul dugðu New Orleans Hornets skammt gegn Philadelphia 76ers. Philadelphia vann 88-70 en þetta var áttundi ósigur New Orleans í ellefu leikjum.

George Hill skoraði 25 stig fyrir San Antonio Spurs sem vann Portland Trail Blazers 95-78. San Antonio er með besta vinningshlutfall deildarinnar.

Cleveland Cavalier tapaði sínum áttunda leik í röð. Oklahoma City Thunder vann 106-77 sigur í viðureign liðanna í nótt en Cleveland hefur ekki tapað svona mörgum leikjum í röð síðan Lebron James var átján ára nýliði. Kevin Durant var með 25 stig fyrir Oklahoma.

Dwight Howard skoraði 22 stig þegar Orlando Magic vann 94-85 útisigur á Los Angeles Clippers. Góður varnarleikur var lykillinn að sigri Orlando.

New Jersey - LA Lakers 92-99

New York - Denver 129-125

Oklahoma - Cleveland 106-77

Philadelphia - New Orleans 88-70

San Antonio - Portland 95-78

LA Clippers - Orlando 85-94



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×