Fótbolti

Dregið í riðla í undankeppni EM 2012 í fótbolta

Ómar Þorgeirsson skrifar
Landsliðsþjálfarinn Ólafur Jóhannesson og landsliðsfyrirliðinn Hermann Hreiðarsson.
Landsliðsþjálfarinn Ólafur Jóhannesson og landsliðsfyrirliðinn Hermann Hreiðarsson. Mynd/Stefán

Það kemur í ljós á sunnudaginn hverjir verða mótherjar karlalandsliðs Íslands í fótbolta í undankeppni EM 2012 en lokakeppnin fer fram í Póllandi og Úkraínu að þessu sinni.

Drátturinn fer fram í Varsjá og hefst kl. 11 að íslenskum tíma en þjóðunum sem taka þátt hefur verið skipt upp í sex styrkleikaflokka en við skiptingu í flokkana var stuðst við styrkleikalista alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA.

Ísland er í fimmta styrkleikaflokki en dregið verður í níu riðla, sex riðla með sex þjóðum og þrjá riðla sem innihalda fimm þjóðir. Sigurvegarar hvers riðils komast beint í úrslitakeppnina ásamt þeirri þjóð sem stendur best að vígi af þeim þjóðum sem verða í öðru sæti.

Hinar átta þjóðirnar sem lenda í öðru sæti spila svo umspilsleiki um fjögur laus sæti. Við þær fjórtán þjóðir sem tryggja sér farseðilinn á lokakeppnina bætast svo við gestgjafarnir Pólland og Úkraína.

Flokkarnir eru eftirfarandi:

1. Flokkur:


Spánn, Þýskaland, Holland, Ítalía, England, Króatía, Portúgal, Frakkland og Rússland.

2. Flokkur:

Grikkland, Tékkland, Svíþjóð, Sviss, Serbía, Tyrkland, Danmörk, Slóvakía og Rúmenía.

3. Flokkur:

Ísrael, Búlgaría, Finnland, Noregur, Írland, Skotland, Norður Írland, Austurríki og Bosnía-Hersegóvína.

4. Flokkur:

Slóvenía, Lettland, Ungverjaland, Litháen, Hvíta Rússland, Belgía, Wales, Makedónía og Kýpur.

5. Flokkur:

Ísland, Svartfjallaland, Albanía, Eistland, Georgía, Moldavía, Armenía, Kasakstan og Liechtenstein.

6. Flokkur:

Aserbaídsjan, Lúxemborg, Malta, Færeyjar, Andorra og San Marínó.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×