Körfubolti

Pétur: Erum að vinna okkur inn í mótið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Guðmundsson
Pétur Guðmundsson Mynd/Stefán
„Þetta var mjög góður sigur hjá okkur og við erum að vinna okkur hægt og rólega inn í mótið," sagði Pétur Guðmundsson, aðstoðarþjálfari Keflvíkinga, eftir sigurinn á Fjölni í kvöld. Keflavík vann Fjölni 104-96 í 6.umferð Iceland-Express deild karla en leikurinn fór fram í Grafarvoginum.

Pétur Guðmundsson stýrði liðinu í kvöld sökum þess að Guðjón Skúlason var staddur erlendis.

„Þetta var í raun bara mikill sóknarleikur hér í kvöld og lítið um varnarleik. Við verðum að vinna aðeins í vörninni hjá okkur og það er nægur tími til þess enda vinnur ekkert lið mótið í nóvember," sagði Pétur.

„Það sem lagði gruninn að þessum sigri hjá okkur var hversu sterkir við vorum inn í teig. Menn börðust vel og uppskáru mikilvæg fráköst. Ég held einnig að við séum bara með töluvert reynslumeira lið en Fjölnir og ákveðin sigurhefð fylgir okkur," sagði Pétur.

„Við erum ekki alveg að spila eins vel og við getum og það er komin tími til þess að fara sýna okkar rétta andlit. Leikurinn í kvöld er skref í rétta átt og þetta á eftir að koma hjá okkur," sagði Pétur Guðmundsson ánægður eftir leikinn í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×