Körfubolti

Rajon Rondo um Miami: Eina liðið sem ég hef áhyggjur af er LA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rajon Rondo.
Rajon Rondo. Mynd/AFP
Rajon Rondo, leikstjórnandi Boston Celtics, skilur ekkert í því af hverju menn eru að spá því að Miami Heat vinni NBA-meistaratitilinn á næsta ári. Veðmangarar voru fljótir að setja Miami í efsta sætið eftir að ljóst var að LeBron James, Chris Bosh og Dwyane Wade munu allir spila með liðinu.

„Þeir ættu að verða góðir en þeir hafa ekki gert neitt ennþá," sagði Rajon Rondo þegar hann var á æfingu með bandaríska landsliðinu. Rondo hefur þegar unnið einn meistaratitil með Boston og var einum leik frá því að bæta öðrum í safnið á síðasta tímabili.

„Ég sér enga ástæðu fyrir því að vera stressaður að að mæta þeim. Eina liðið sem ég hef áhyggjur af er LA. Það er liðið sem við þurfum að vinna. Miami lítur vel út á pappírnum og ég er viss um að þeir verði góðir en þeir verða að ná saman sem lið. Ég er ekki að segja að þeir geri það ekki en hver veit hvernig málin þróast hjá þeim," sagði Rondo.

Rajon Rondo líkar ágætlega við það að pressan sé á öðrum en Boston-liðinu.

„Það var engin pressa á okkur á síðasta tímabili. Þá afskrifuðu okkur allir og það verður eins í ár. Við unnum samt bara 50 leiki og komumst alla leið í lokaúrslitin," sagði Rondo sem lék mjög vel með Boston á síðasta tímabili.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×