Körfubolti

Guðjón Skúlason: Einmitt það sem ég bjóst við

Elvar Geir Magnússon skrifar

Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, tók glaður við stigunum tveimur sem liðið vann fyrir gegn Tindastóli í kvöld. Keflvíkingar náðu þar með að hefna fyrir ósigurinn um síðustu helgi þegar Stólarnir komust áfram í bikarnum.

„Þetta var ágætt. Maður býst alltaf við látum í þessari stöðu, liðið nýbúið að tapa bikarleik og mætum Tindastóli á heimavelli aftur. Menn vilja koma og sanna sig og þetta er einmitt það sem ég bjóst við," sagði Guðjón.

En hver var munurinn á leik Keflvíkinga í þessum leik og þeim síðasta? „Fljótt á litið eru það tveir til þrír hlutir. Frákastagetan var miklu betri í þessum leik og við erum duglegri. Við töpuðum boltanum mun minna en í síðasta leik og veljum betri skot í sóknarleiknum. Við erum að fá miklu auðveldari körfur. Við unnum ekki saman í síðasta leik en um leið og það gerist er allt annar leikur," sagði Guðjón.

„Það er í raun bara eitt mót eftir hjá okkur og þetta voru gríðarlega mikilvæg stig til að rífa okkur nær toppnum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×