Körfubolti

Helgi Freyr: Verður svona þegar hormónarnir fara upp

Elvar Geir Magnússon skrifar
Mynd/Tindastoll.is
Mynd/Tindastoll.is

„Við vorum okkar versti óvinur í kvöld," sagði Helgi Freyr Margeirsson, leikmaður Tindastóls, eftir að liðið beið lægri hlut fyrir Keflavík á útivelli í kvöld. Þegar liðin mættust í bikarnum um síðustu helgi bar Tindastóll sigur úr býtum.

„Við áttum í vandræðum gegn svæðinu þeirra í lokin og svo misstum við of mörg fráköst. Við unnum þá í frákastabaráttunni í síðasta leik ásamt því að við tengdum saman góða vörn og góða sókn en náðum því ekki núna."

Spennan og hitinn í leiknum var mikill og kom til handalögmála í lokin. „Það er allt undir og auðvitað verða alltaf pústrar í svona leik. Okkur finnst stundum á okkur hallað en þetta jafnast allt út yfir allan leikinn. Þegar hormónarnir fara upp verður þetta svona," sagði Helgi sem leit samt á jákvæðu hliðarnar enda allt annað að sjá Tindastólsliðið í dag en í byrjun móts.

„Við vorum mánuði á eftir öðrum liðum í undirbúningi og fengum lélega sendingu af útlendingum. Við vorum ekki komnir með tíu manna æfingar fyrr en seint í september. Svo erum við að aðlaðast nýjum mönnum og þetta tekur allt sinn tíma. Nú erum við komnir til að vera og leiðin er bara upp."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×