Körfubolti

Hrafn: Hlaut að koma að því að skotin færu niður

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR.
Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR. Mynd/Anton
„Það er gott að ná sigri og maður má aldrei gleyma því að hafa gaman af því að vinna, sama hversu sterkur sem mótherjinn er," sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR-ingar eftir sigur sinna manna gegn nýliðum Hauka í DHL-Höllinni í kvöld, 93-83.

„Við vorum lengi í gang og misstum taktinn sem má ekki gerast. Við verðum að spila okkar leik en ekki leyfa liðum að svæfa okkur með hægri spilamennsku. Haukar voru klókir en það hlaut að koma að því að skotin fyrir utan færu að detta," segir Hrafn en KR-ingar buðu upp á skotsýningu í lokaleikhlutanum og settu niður sex þriggja stiga körfur í röð.

Ólafur Már Ægisson átti góða innkomu í liði KR og kveikti í KR-ingum. „Óli er þannig leikmaður sem vinnur leiki fyrir lið. Hann er það góð skytta að ef hann fær nokkur skot þá er bróðurparturinn af þeim að fara niður. Það sem við verðum að passa er að halda í okkar leik og persónuleika sem lið. Ef við gerum það þá koma sigrar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×