Körfubolti

Phil Jackson fær 256 milljónir í bónus ef Lakers vinnur titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Jackson, þjálfari Los Angeles Lakers.
Phil Jackson, þjálfari Los Angeles Lakers. Mynd/AP
Phil Jackson, þjálfari Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta, fær veglegan bónus fyrir að gera Lakers-liðið að NBA-meisturum annað árið í röð.

Samkvæmt heimildum bandaríska fjölmiðla þá fær Jackson tvær milljónir dollara fyrir að gera Lakers að meisturum en það eru um 256 milljónir íslenskra króna. Jackson fékk 12 milljónir dollara í laun fyrir tímabilið (einn og hálfur milljarður) og er launahæsti þjálfari deildarinnar.

Jackson getur unnið sinn ellefta meistaratitil sem þjálfari vinni Lakers hreinan úrslitaleik á móti Boston Celtics aðra nótt en liðið er mun sigurstranglegra enda á heimavelli auk þess að Lakers vann 22 stiga sigur í sjötta leiknum í LA síðustu nótt.

Framtíð Phil Jackson hjá Lakers getur líka ráðist í þessum oddaleik um titilinn á morgun. Jackson hefur talað um það að hann hafi áhuga á að þjálfa liðið áfram á næsta ári ef eigi hann möguleika á að vinna titilinn þriðja árið í röð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×