Körfubolti

Gunnar: Þetta er allt að koma hjá okkur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gunnar Einarsson.
Gunnar Einarsson. Mynd/Daníel
„Þetta var mjög fínn sigur hjá okkur og mjög svo mikilvægur" sagði Gunnar Einarsson, leikmaður Keflvíkinga, eftir sigurinn í kvöld. Keflavík bar sigur úr býtum gegn Fjölni, 96-104, í 6.umferð Iceland-Express deild karla en leikurinn fór fram í Grafarvogi.

„Við vorum að spila á móti ungum og ferskum strákum í kvöld og við vissum alveg að þetta yrði alls ekki auðveldur leikur. Við börðumst bara eins og ljón allan leikinn og hlutirnir gengu bara upp hjá okkur," sagði Gunnar.

„Við höfum samt oft spilað betur en í kvöld en þetta var bara í raun allt í lagi. Við misstum þá aðeins frá okkur í fyrri hálfleiknum en komum sterkir til baka og kláruðum leikinn," sagði Gunnar.

Keflavík byrjaði tímabilið mjög illa en hafa verið að koma til undanfarið. Eftir góðan sigur gegn KR í síðustu umferð og sannfærandi sigur í kvöld þá er útlitið bjart hjá Keflvíkingum.

„Þetta er allt að koma hjá okkur. Við erum komnir með Valentino til baka úr meiðslum og Lazar er að koma gríðarlega sterkur inn í liðið. Ég hef engar áhyggjur af liðinu, við eigum eftir að vera góðir í vetur," sagði Gunnar Einarsson ánægður eftir leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×