Körfubolti

Metið hennar Olgu Færseth lifði af áhlaup Unnar Töru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Unnur Tara Jónsdóttir skorar hér tvö af 27 stigum sínum í oddaleiknum.
Unnur Tara Jónsdóttir skorar hér tvö af 27 stigum sínum í oddaleiknum. Mynd/Vilhelm
KR-ingurinn Unnur Tara Jónsdóttir átti frábær lokaúrslit þegar KR-konur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í kvennakörfunni. Unnur Tara skoraði 20 af 27 stigum sínum í seinni hálfleik í oddaleiknum og var á endanum aðeins einu stigi frá því að jafna metið yfir flest stig skoruð í einu úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitil kvenna.

Olga Færseth er þekktari fyrir atrek sín á knattspyrnuvellinum en hún náði því þó að verða fjórum sinnum Íslandsmeistari í körfubolta með Keflavík (1992, 1993 og 1994) og Breiðabliki (1995). Olga var í algjöru aðalhlutverki með Keflavík í lokaúrslitunum 1994 þar sem hún skoraði 111 stig í 5 leikjum eða 22,2 stig að meðaltali í leik. Afrek Olgu er og var stigamet og því hefur aldrei verið ógnað - fyrr en í DHL-höllinni í gærkvöldi.

Síðan að Olga skoraði 111 stig í lokaúrslitunum fyrir sextán árum síðan hefur engum leikmanni tekist að skora svona mörg heildarstig í lokaúrslitunum enda ekki algengt að einvígið fari alla leið í fimm leiki. Stúdínan Meadow Overstreet hafði komist næst því vorið 2002 þegar hún skoraði 105 stig fyrir ÍS.

Unnur Tara Jónsdóttir var ekki líkleg til að ógna metinu þegar var komið fram í hálfleik á oddaleiknum í gær og hún "aðeins" búin að skora 7 stig í leiknum. Það breyttist síðan allt í seinni hálfleik þar sem Unnur Tara var gjörsamlega óstöðvandi.

Unnur Tara skoraði 20 stig í seinni hálfleiknum þar sem hún hitti úr öllum fimm skotum sínum utan af velli og setti niður 10 af 11 vítaskotum sínum. Þegar upp var staðið var hún búin að skora 110 stig í úrslitaeinvíginu eða aðeins stigi minna en Olga fyrir sextán árum síðan. Metið lifði því af áhlaup Unnar Töru en litlu munaði þó.

Flest stig í einu úrslitaeinvígi í kvennakörfunni:

111 Olga Færseth, Keflavík 1994 (5 leikir/111 stig - 22,2 í leik)

110 Unnur Tara Jónsdóttir, KR 2010 (5/110 - 22,0)

105 Meadow Overstreet, ÍS 2002 (5/105 - 21,0)

99 Helga Þorvaldsdóttir, KR 1994 (5/99 - 19,8)

98 Slavica Dimovska, Haukar 2009 (5/98 - 19,6)

96 Megan Mahoney, Haukar 2006 (3/96 - 32,0)

95 Candace Futrell, KR    2008 (3/95 - 31,7)

95 Penny Peppas, Breiðablik 1995 (3/95 - 31,7)

95 Ifeoma Okonkwo, Haukar 2007 (4/95 - 23,8)

95 Hildur Sigurðardóttir, KR 2009 (6/95 - 19,0)

93 TaKesha Watson, Keflavík 2007 (4/93 - 23,3)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×