Körfubolti

Boston meistari í Austurdeildinni og komið í úrslit NBA

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Paul Pierce var í sólskinsskapi í nótt.
Paul Pierce var í sólskinsskapi í nótt. Mynd/AP
Boston Celtics tryggði sér sigur í Austurdeild NBA með því að leggja Orlando í sjötta leik liðanna, 96-84. Liðið mætir Los Angeles Lakers eða Phoenix Suns í úrslitunum þar sem staðan er 3-2 fyrir Lakers. Boston tók góða forystu strax í fyrsta leikhlutanum og leiddi 30-19 eftir hann. Það hélt forystunni í hálfleik, 55-42 og var aldrei líklegt til að láta hana af hendi. Liðið tapaði reyndar síðasta leikhlutanum 23-14 en var komið með 21 stigs forystu fyrir hann. "Það fyrsta sem við sögðum þegar við komum inn í búningsklefa er að þetta er einmitt staðan sem við bjuggumst við að vera í. Þið þurfið því ekki að láta eins og þetta sé eitthvað óvænt. Þetta er það sem við höfum talað um síðan tímabilið byrjaði," sagði Doc Rivers þjálfari. Margir höfðu afskrifað Boston og töldu það ekki nógu gott til að ná alla leið. Þeir hafa heldur betur troðið upp í gagnrýnendur sína, með stæl. Paul Pierce skoraði 31 stig fyrir Boston og tók 13 fráköst, og Ray Allen skoraði 20 stig. Dwight Howard skoraði 28 stig fyrir Orlando og tók 12 fráköst og Vince Carter skoraði 17.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×