Innlent

Telja ráðherrana fjóra ekki hafa fengið réttláta málsmeðferð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Allsherjarnefnd að störfum. Mynd/ Stefán.
Allsherjarnefnd að störfum. Mynd/ Stefán.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd Alþingis telja að ýmsar reglur laga um ráðherraábyrgð og landsdóm standist ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta eigi meðal annars við um reglurnar um ákæruvald Alþingis, pólitíska skipun hluta dómenda við landsdóm og það fyrirkomulag að aðeins sé fjallað um ráðherraábyrgðarmál á einu dómstigi.

Segja þau Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, í nefndaráliti sínu að á þessa þætti hafi reynt með þeim hætti í máli dansks ráðherra fyrir danska ríkisréttinum og Mannréttindadómstól Evrópu að það hafi fordæmisgildi hér á landi. Segja þau Birgir og Ólöf að núgildandi fyrirkomulag hér á landi geti hvað þessi atriði varðar talist óheppilegt og óæskilegt, en ekki í andstöðu við stjórnarskrána og mannréttindasáttmálann.

Minni hlutinn telur á hinn bóginn að lögin um ráðherraábyrgð og landsdóm séu óviðunandi og ófullnægjandi þegar horft sé til málsmeðferðar í aðdraganda ákæru. Skipti þar mestu að réttarvernd sakborninga sé ekki tryggð í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála. Í þessum efnum standist hin íslensku lög ekki gagnvart framangreindum ákvæðum.

Meirihluti allsherjarnefndar lauk við umfjöllun sína um málið í gær. Niðurstaða meirihlutans er á önduverðum meiði við niðurstöðu meirihlutans. Í áliti meirihlutans kemur fram að hann telur að í þingsályktunartillögunum um ákærur gegn þeim Geir Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna Mathiesen og Björgvin G. Sigurðssyni felist ekki mannréttindabrot.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×