Körfubolti

Lakers og Orlando komin í 3-0

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Los Angeles Lakers og Orlando Magic eru svo gott sem komin í úrslitarimmu sinna deilda eftir sigur á andstæðingum sínum í nótt. Bæði lið leiða sína seríu, 3-0.

Lakers vann afar nauman sigur á Utah í nótt, 110-111. Sú ákvörðun Utah Jazz að sleppa Derek Fisher fyrir þremur árum kom heldur betur í bakið á þeim í nótt er Fisher setti niður þrist þegar 28,6 sekúndur voru eftir af leiknum en það reyndist vera sigurkarfa leiksins.

„Ég lifi fyrir svona," sagði brosmildur Fisher eftir leikinn en hann skoraði 20 stig í leiknum.

Kobe Bryant var annars stigahæstur með 35 stig en Deron Williams skoraði 28 fyrir Utah.

Orlando flengdi Atlanta enn eina ferðina í nótt en sú rimma er fyrir löngu orðinn einn stór brandari. Sigur Orlando í nótt var versta tap Atlanta á heimavelli fyrr og síðar í úrslitakeppninni.

Magic er búið að vinna alla sjö leiki sína í úrslitakeppninni og hafa unnið Atlanta með 29 stigum að meðaltali.

Stuðningsmenn Atlanta bauluðu á sitt lið í leikhléi en þá var staðan 52-33.

Rashard Lewis var stigahæstur hjá Orlando með 22 stig og Jamal Crawford skoraði jafn mikið fyrir Atlanta.

Úrslit næturinnar:

Atlanta-Orlando  75-105

Utah-LA Lakers  110-111

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×