Körfubolti

Ingi Þór: Mjög hissa á úrslitunum í Seljaskóla

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells.
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells. Mynd/Daníel
„Ég verð að viðurkenna að þetta kemur mér nokkuð á óvart og er mjög hissa á úrslitunum í Seljaskóla," sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, sem varð deildarmeistari í Iceland Express deild karla í kvöld. Snæfell vann sigur á Hamri á heimavelli, 76-64 á meðan KR tapaði illa fyrir ÍR í Seljaskóla, 125-94. Þar með er ljóst að Snæfell er deildarmeistari.

Snæfell lenti í basli með lið Hamars sem er í fallbaráttunni og leiddu gestirnir í hálfleik, 38-39. Í síðari hálfleik náðu heimamenn í Snæfelli að snúa leiknum sér í hag.

„Hamar barðist vel og gerði okkur mjög erfitt fyrir. Við gerðum það sem þurfti og ég er mjög ánægður með sigurinn. Áhorfendur voru byrjaðir að kalla stöðuna úr Seljaskóla til okkar og þá lagði ég saman tvo og tvo. Við höfum oft leikið betur en þetta var gott framlag hjá heildinni," sagði Ingi Þór sem þar með hefur unnið alla titla sem eru í boði hér á landi með Snæfelli á undanförnum tveimur árum.

„Þetta var síðasta púslið og jafnvel spurning hvort maður segi ekki bara af sér," sagði Ingi Þór léttur að vanda en hann gerði liðið að Íslands- og bikarmeisturum á síðasta ári. Ingi Þór gerði liðið einnig að Lengjubikarmeisturum í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×