Körfubolti

Mike Bibby á leiðinni til Miami Heat?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Bibby lék aðeins tvo leiki með Wizards.
Mike Bibby lék aðeins tvo leiki með Wizards. Mynd/AP
Mike Bibby og Washington Wizards gengu frá starfslokasamningi í gærkvöldi og er því leikstjórnandinn laus allra mála frá félaginu. Washington-liðið hafði fengið Bibby frá Atlanta Hawks í skiptum fyrir Kirk Hinrich en fleiri leikmenn voru einnig með í þessum skiptum.

Bibby vildi ekki spila með einu lélegasta liði NBA-deildarinnar og fórnaði 6,2 milljónum dollara sem hann átti inni fyrir lokaár samningsins en það gerir um 720 milljónir íslenskra króna. Hann spilaði aðeins tvo leiki með Washington en ætlar nú að leita sér að liði sem á möguleika á að vinna titil.

„Þetta kom á óvart," sagði Flip Saunders, þjálfari Washington Wizards. „Þegar þú ert á þessum tímapunkti á ferlinum þá skipta oft aðrir hlutir meira máli en peningar. Við vonum að hans markmið með þessu sé að reyna að verða meistari," sagði Saunders.

Bibby hefur verið orðaður við Miami Heat sem vantar tilfinnanlega leikstjórnanda. Bibby er orðinn 32 ára gamall en ætti að getað hjálpað þeim LeBron James og Dwyane Wade í komandi úrslitakeppni.

Bibby var með 9,4 stig og 3,6 stoðsendingar að meðaltali á 29,9 mínútum með Atlanta á tímabilinu en frægastur er hann fyrir tíma sinn hjá Sacramento Kings þar sem hann spilaði stórt hlutverk á árunum 2001 til 2008.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×