Körfubolti

Hópslagsmál á Ásvöllum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Ingvarsson, þjálfari Hauka, gæti verið án margra leikmanna í næsta leik.
Pétur Ingvarsson, þjálfari Hauka, gæti verið án margra leikmanna í næsta leik.
Það sauð heldur betur upp úr í leik Hauka og KFÍ í lokaumferð Iceland Express deildar karla í körfubolta á Ásvöllum í kvöld. Haukarnir tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni með 88-68 sigri en gætu verið án nokkurra leikmanna í fyrsta leik í úrslitakeppninni á móti Snæfelli því fjórum leikmönnum liðsins var vikið út úr húsi í kvöld og einn leikmaður endaði á sjúkrahúsi.

Í upphafi fjórða leikhluta urðu mikil slagsmál sem urðu til þess að sjö leikmönnum liðanna, fjórum leikmönnum Hauka og þremur leikmönnum KFÍ,  var hent út úr húsi.

Upphafið má rekja til þess að Haukamaðurinn Davíð Páll Hermannsson og KFí-maðurinn Darco Milosevic fóru að slást inn á vellinum. Leikmenn úr báðum liðum fóru inn á völlinn í kjölfarið og dómarar leiksins, þeir Einar Þór Skarphéðinsson og Halldór Geir Jensson, ráku að lokum sjö leikmenn út úr húsi.

Haukamennirnir sem voru reknir út voru þeir Davíð Páll Hermannsson, Gerald  Robinson, Óskar Ingi Magnússon og Steinar Aronsson, KFÍ-mennirnir Darco Milosevic, Carl Josey og Ingvar Bjarni Viktorsson fengu einnig brottrekstur.

Áður en upp úr sauð höfðu Haukar misst bakvörðinn Emil Barja af velli en hann var fluttur upp á sjúkrahús, meiddur á auga. Haukarnir gætu því verið án margra leikmanna í fyrsta leik úrslitakeppninnar þar sem þeir mæta Snæfellingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×