Körfubolti

Hrafn Kristjáns: Þetta eru stríðsmenn og reynsluboltar

Elvar Geir Magnússon í DHL-höllinni skrifar
Hrafn Kristjánsson.
Hrafn Kristjánsson.
Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, var ekki lengi að svara þegar hann var spurður að því eftir sigurinn gegn Keflavík hvað hann hafi verið ánægðastur með hjá sínu liði í leiknum.

„Varnarleikinn í öðrum leikhluta. Við höfum átt svona leikhluta og það er unun að horfa á það,“ sagði Hrafn.

KR vann 87-79 í þessum fyrsta leik liðanna í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. Keflvíkingar byrjuðu leikinn hinsvegar miklu betur og höfðu yfir 26-11 eftir fyrsta leikhluta.

„Þeir byrjuðu einstaklega vel, það verður ekki tekið af þeim. Þeir voru að hitta öflugum skotum og það var hörkukraftur í þeim. Á sama tíma vorum við fullmikið til baka varnarlega og vorum að leyfa þeim að senda á milli án þess að það væri nokkur yfirdekkun eða við vorum nokkuð að koma við þá.“

„Þú leyfir ekki Magnúsi Gunnarssyni að dripla fyrir framan vítateiginn hjá þér og velja sendingar. Það verður að láta hann hafa eitthvað fyrir hlutunum. Um leið og við kipptum því í liðinn þá fór þetta að fljóta,“ sagði Hrafn en hans menn fundu taktinn í öðrum leikhluta.

Hrafn er með á hreinu hvað það var sem vakti hans menn. „Það var bara fullvissan um það að þeir væru búnir að skíta laglega á sig. Þetta eru stríðsmenn og reynsluboltar og góðir körfuboltamenn. Þeir eru ekkert að fara að spila svona í 40 mínútur fyrir framan sitt eigið fólk,“ segir Hrafn.

Það lið sem er fyrri til að vinna þrjá leiki fer í úrslitin en annar leikur liðanna verður í Keflavík strax á miðvikudag.

„Það vinnur með okkur í þessu. Við höfum fengið að hvíla en nú taka við nokkrir leikir með stuttu millibili og það er bara glæsilegt,“ sagði Hrafn Kristjánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×