Körfubolti

Jón Halldór: Er með stelpur sem hafa spilað milljón svona leiki

Stefán Árni Pálsson í DHL-höllinni skrifar
Jón Halldór Eðvaldsson
Jón Halldór Eðvaldsson Mynd/Stefán
"Við ætluðum okkur í úrslit og því erum við í toppmálum," sagði Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, eftir sigurinn í kvöld. Keflavík komst í kvöld í úrslitaeinvígið í Iceland-Express deild kvenna eftir 70-62 sigur gegn KR í fjórða leik liðana og einvíginu lauk því með 3-1 sigri suðurnesjastúlkna.



„Þetta var hörkuleikur þar sem tvö frábær lið voru að mætast en þegar upp er staðið þá var það fjórði leikhlutinn sem skilaði okkur þessum sigri," sagði Jón.



„ Liðið er skipað af gríðarlega reynslumiklum leikmönnum sem hafa spilað milljón svona leiki og það hjálpar mikið í svona leik."



„Ég er bara með stórkostlegt lið í höndum og það frábært að sigra þær á þeirra eigin heimavelli. Liðsheildin hjá okkur er virkilega sterk og það er að koma okkur í úrslitaeinvígið," sagði Jón.



Keflavík mætir annað hvort Njarðvík eða Hamarsstúlkum í úrslitum , en oddaleikur í því einvígi fer fram á þriðjudaginn.



„Ég væri svo sem alveg til í að fá Njarðvík í úrslitum en það er orðin langt síðan að maður sá alvöru suðurnesja úrslitaeinvígi," sagði Jón Halldór að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×