Mist Edvardsdóttir miðvörður Vals var sár eftir 2-1 tap gegn Stjörnunni í toppslag Pepsi-deildar kvenna í Garðabænum í kvöld.
„Þetta er ógeðsleg tilfinning. Þetta er svo ósanngjarnt. Það er það sem er mest svekkjandi við þetta. Við getum nagað okkur í handarbökin yfir því að hafa ekki klárað okkar færi. En hver sem er á vellinum gat séð að við vorum betra liðið í dag," sagði Mist.
Valskonur höfðu yfirburði á vellinum allt þar til á 64. mínútu þegar Caitlin Miskel fékk rautt spjald.
„Í rauninni ekki. Manni færri fannst mér við halda haus. Við fáum vítið reyndar á okkur en mér fannst við aldrei lenda undir í baráttu. Þess vegna er þetta ógeðslega svekkjandi að þetta detti svona fyrir þær,"
Valskonur stefndu á sinn sjötta Íslandsmeistaratitil í röð. Eftir leik kvöldsins eru Stjörnustúlkur með fimm stiga forskot. Draumurinn um titilinn virðist fjarlægur.
„Já, við getum ekki treyst á okkur lengur. Við verðum að treysta á að þær tapi stigum. Ég sé þær svo sem ekki tapa þessu það sem eftir er mótinu. Þær eru fimm stigum á undan. Þetta er langsótt."
Caitlin Miskel fékk rautt spjald fyrir að sparka í Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur leikmann Stjörnunnar þegar boltinn var víðs fjarri. Mist fannst dómari leiksins ekki taka rétt á málunum.
„Þetta er rautt spjald á Caitlin. En ef hann ætlar að gefa henni rautt og reka hana útaf þá þarf hann að gera það sama við Stjörnustelpuna. Þetta er ekki henni líkt að ráðast á menn. Ótrúlegt að hann dómarinn skuli aðeins spjalda annan aðilann," sagði Mist.

