Körfubolti

Njarðvíkurkonur upp í annað sætið - þriðja tap KR í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Stefán
Njarðvíkurkonur eru komnar upp í annað sæti Iceland Express deildar kvenna í körfubolta eftir ellefu stiga sigur á KR, 84-73, í DHL-höllinni í kvöld. KR-liðið vann fimm fyrstu leiki sína en hefur nú tapað þremur leikjum í röð.

Njarðvíkurliðið er aftur á móti á miklu skriði undir stjórn Sverris Þórs Sverrissonar en liðið hefur nú unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum. Lele Hardy átti frábæran leik en hún var með 30 stig og 12 fráköst og Shanae Baker var með 18 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar. Erna Hákonardóttir var stigahæsti íslensku leikmanna liðsins með fimmtán stig.

Sigrún Ámundadóttir skoraði 23 stig fyrir KR, Erica Prosser var með 20 stig og Helga Einarsdóttir bætti við 13 stigum og 10 fráköstum. Margrét Kara Sturludóttir skoraði hinsvegar aðeins 7 stig og munar mun minna.

Njarðvík byrjaði leikinn af krafti og var komið í 15-5 eftir rúmar fjórar mínútur en Erna Hákonardóttir skoraði þrjár þriggja stiga körfur á upphafsmínútum leiksins. KR minnkaði muninn í 14-18 en Njarðvík var 21-16 yfir eftir fyrsta leikhlutann.

Njarðvíkurliðið byrjaði annan leikhlutann eins vel og þann fyrsta og var komið í 30-17 eftir aðeins þrjár mínútur. Njarðvík hélt góðu forskoti fram að hálfleik en KR-liðið náði að minnka muninn í sjö stig, 38-45, fyrir hálfleik.

Njarðvíkurkonur bættu við í þriðja leikhlutanum sem þær unnu 25-17 og voru því fimmtán stigum yfir, 70-55, fyrir lokaleikhlutann. KR skoraði sjö fyrstu stigin í fjórða leikhlutanum og minnkaði muninn í átta stig, 62-70.

KR kom muninum niður í fjögur stig, 71-75, þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir ekki síst fyrir frábæran leik Sigrúnar Ámundadóttur sem leiddi endurkomu KR-liðsins í seinni hálfleiknum. Njarðvík svaraði hinsvegar með fimm stigum í röð og landaði frábærum ellefu stiga sigri, 84-73.



KR-Njarðvík 73-84 (16-21, 22-24, 17-25, 18-14)

KR: Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 23/9 fráköst, Erica Prosser 20/5 fráköst/5 stoðsendingar, Helga Einarsdóttir 13/10 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 10/8 fráköst/6 stoðsendingar, Margrét Kara Sturludóttir 7/5 fráköst.

Njarðvík: Lele Hardy 30/13 fráköst, Shanae Baker 18/8 fráköst/8 stoðsendingar, Erna Hákonardóttir 15, Eyrún Líf Sigurðardóttir 7, Petrúnella Skúladóttir 4/5 fráköst, Salbjörg Sævarsdóttir 4/6 fráköst, Sara Dögg Margeirsdóttir 4, Harpa Hallgrímsdóttir 2/4 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×