Afleiður og útafakstur Magnús Halldórsson skrifar 22. desember 2011 13:00 Það er algengt á Norðurlöndunum að kostnaður við hita og rafmagn í 120 fermetra íbúð fari upp í hundrað þúsund krónur á mánuði þegar það verður kalt úti. Jafnvel meira. Hér á Íslandi fer þessi sami kostnaður sjaldnast yfir sex þúsund krónur, við sömu aðstæður. Gengisfallið hefur ýkt þennan mun, í krónum talið, en sé horft framhjá því er hann samt margfaldur erlendis miðað við hér á landi. Ástæðan liggur í mestu auðlind sem Ísland á; náttúrulegum orkuauðlindum sem nýtast til húshitunar og rafmagnsframleiðslu fyrir miklu lægri tilkostnað en þekkist í nær öllum öðrum löndum, bæði hvað varðar umhverfislegan kostnað og síðan beinan fjárhagslegan kostnað. Án þess að lítið sé gert úr öðrum styrkleikum Íslands þá held ég að ekkert geti talist jafnmikil lífskjarabót fyrir almenning eins og fyrrnefnt atriði. Maður gleymir þessu stundum, en það er hollt að minna sig á þetta, ekki síst nú á tímum.Skipbrot Í þessu samhengi verður skipbrot Orkuveitu Reykjavíkur fyrr á þessu ári að skoðast. Ótrúlegt er að hugsa til þess að svo illa hafi getað farið fyrir jafn stöndugum grunnrekstri í almannaeigu með gagnsæ markmið og auðskiljanlegar samþykktir. Að mínu mati er það mesta pólitíska hneyksli sem komið hefur upp á sveitarstjórnarstiginu í landinu nokkru sinni. Þetta eru vafalítið stór orð að mati einhverra, en samt finnst mér þau fremur lítil, þegar horft til þess hvernig borgarfulltrúar í Reykjavík rústuðu fyrirtækinu með tilheyrandi neikvæðum fjárhagslegum afleiðingum. Engum er um að kenna nema borgarfulltrúunum sjálfum. Þeir mörkuðu stefnuna sem leiddi til þess að OR hvarf útaf réttri braut og endaði í fjárhagslegri gjörgæslu, þar sem fyrirtækið verður í nokkur ár til viðbótar, á meðan traust lánveitenda er endurunnið. Vandamál OR sem leiddi fyrirtækið í vandræði er í sjálfu sér einfalt. Fyrirtækið fór að stunda áhætturekstur sem samræmist ekki samþykktum og lögum sem gilda um fyrirtækið. Og þessi áhætta reyndist ekki borga sig, endaði raunar með ósköpum. Nokkur atriði er þessu tengjast: I. Orkuveitan hóf að stunda óskyldan rekstur en samræmist lögum um fyrirtækið og áratugalangri hefð. Það fór að virkja fyrir önnur verkefni en þau sem snerta það hlutverk, að útvega almenningi vatn og rafmagn á góðum kjörum. Í staðinn varð OR umsvifamikið fyrirtæki á sviði afleiðuviðskipta, þar sem stofnað var til tugmilljarða skulda í öðrum myntum en þeirri sem fyrirtækið hefur um 80% tekna sinna í, og á það veðjað að framtíðartekjur yrðu svo miklar að þær myndu duga fyrir öllu saman án þess að of mikil áhætta hlytist af. Þetta reyndist rangt. Það sem blindaði mönnum sýn, að mínu mati, var algjörlega opið aðgengi að ódýru lánsfé m.a. vegna opinberar ábyrgðar á skuldum fyrirtækisins. Borgarfulltrúarnir, þvert á flokka, fóru með fyrirtækið útaf brautinni sem lög og reglur fyrirtækisins segja til um. Alþjóðlegir Lánveitendur voru tilbúnir að bjóða verulegan afslátt á vaxtakjörum vegna þess að það var litið svo á að það væri alltaf hægt að fara ofan í vasa eigenda fyrirtækisins, skattgreiðenda, og borga skuldirnar með þeim peningum, ef OR væri með tóma vasa. Þetta reyndist vera rétt mat hjá lánveitendum, þeir fá sitt til baka, en með hjálp gjaldskrárhækkana og peningaframlags frá eigendum fyrirtækisins, auk eignasölu, uppsagna og endurskipulagningar á rekstri. II. Eftir hrun fjármálakerfisins og krónunnar stóðu skuldir OR í um 240 milljörðum króna og höfðu margfaldast á nokkrum árum. Skuldir OR voru stór hluti allra skulda sveitarstjórnarstigsins á Íslandi. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins, sem yfir margra ára tímabil hafði verið í kringum 50 til 60%, gufaði upp. Skuldaaukninguna má ekki rekja til gengisfallsins eingöngu, heldur ekki síður til nýrra skuldbindinga sem borgarfulltrúarnir tóku ákvörðun um að stofna til. Það var ráðist í virkjanaframkvæmdir og stefnt að sölu á raforku til stóriðju, sem síðan átti að borga allt til baka. Þessi verkefni eru enn í óvissu, og óvíst hvernig leyst verður úr þeirri stöðu. Til langs tíma ættu þetta vera að góðar fjárfestingar, en það á raunar við um flest allar framkvæmdir sem tengjast styrkingu innviða. Það er hins vegar ekki hægt að ráðast út í miklar framkvæmdir öðruvísi en að eiga fyrir því. Forgangsröðun og framtíðarsýn er það sem mestu skiptir í þeim efnum. Hana hefur skort hjá borgarfulltrúunum sem markað hafa stefnu OR. Í það minnsta þar til nú, en Bjarni Bjarnason forstjóri og forveri hans Helgi Þór Ingason, virðast hafa gert sér miklu betur grein fyrir stærð vandamáls fyrirtækisins heldur en borgarfulltrúarnir. Þeir hafa enda mikla reynslu á þessu sviði, og mikla sérhæfða verkfræðimenntun sem eflaust hefur hjálpað þeim að búa til áætlanir um að leysa vandamálin. Það hefur líka verið rétt ákvörðun hjá Jóni Gnarr borgarstjóra að skipta sér lítið af einstaka ákvörðunum, í ljósi þess að hann hefur augljóslega ekki nægilega þekkingu á málefninu. En það á við um fleiri, líklega flesta borgarfulltrúana sem sitja í stjórn fyrirtækisins. Það er styrkleikamerki stjórnenda að gera sér grein fyrir takmörkunum sínum og færa verkefni í hendur þeirra sem betur til þekkja. Nákvæmlega það hefur skipt mál að undanförnu við að laga rekstur OR og gera áætlun til langs tíma um að koma fyrirtækinu á rétta braut.Hring eftir hring Það má síðan líka nefna, að OR fór inn í rækjueldi og fleira – að ógleymdu REI – sem með engu móti tengdist rekstri OR samkvæmt lögum og samþykktum sem gilda um fyrirtækið. Árum saman hefur fyrirtækið líka átt taprekstur sem bundinn hefur verið í glerhýsi sem snýst í hringi í Öskjuhlíðinni. Núna er verið að selja það, því betur, en það er eins og fyrri daginn með sölu á eignum í eigu almennings; stjórnmálamenn þurfa alltaf að klúðra því. Í það minnsta er fyrirsjáanlegt að salan á glerhýsinu muni snúa mörgum borgarfulltrúum í hringi áður en skattgreiðendur eru leystir undan þessum glórulausa rekstri sem kemur almannahlutverki OR ekkert við og samræmist ekki grunnstarfsemi fyrirtækisins. III. Eðlilega hafa borgarfulltrúarnir í Reykjavík spurt; hvernig gat þetta gerst? Athugun á því hefur leitt til gerð skýrslu, sem m.a. hefur verið fjallað um ítarlega í Kastljósi RÚV. Í stórum dráttum var margt í ólestri í rekstri fyrirtækisins. Það er alveg sama hvað verða skrifaðar margar skýrslur um OR eða REI. Eitt atriði blasir við og er mikilvægt að halda til haga: Vanda OR má rekja til rangra ákvarðana borgarfulltrúa, ekki einstaka starfsmanna OR. Þeir framkvæmdu stefnu borgarfulltrúana, sem var í öllum meginatriðum röng. Ég hef í nokkur ár fylgst með orkumálum sem blaðamaður og tekið viðtöl við ýmsa sem tengjast orkugeiranum með ýmsum hætti. Nokkur samtöl við Önnu Skúladóttur, fyrrverandi fjármálastjóra OR, og Hjörleif Kvaran, fyrrverandi forstjóra OR, eru eftirminnileg, ekki síst í ljósi þess sem síðar gerðist. Þau sögðu mér bæði að þau hefðu margítrekað bent á nauðsyn þess að láta gjaldskrá OR fylgja breytingum á vísitölu neysluverðs, verðbólgu. Stjórnmálamennirnir í stjórninni stoppuðu það alltaf, töldu sig vera að vinna góðverk með því að halda gjöldunum niðri. Þegar síðan fór að kreppa að þá var um margra ára skeið búið að trassa að láta gjaldskrána í það minnsta samræmast verðbólgubreytingum frá einum tíma til annars, og munaði þar tugum prósenta. Þetta gróf undan sjálfum grunnrekstrinum og dýpkaði vanda fyrirtækisins, vegna þess að gjaldskrárhækkanir í því erfiða árferði sem hér hefur ríkt að undanförnu eru ekki sjálfsagðar. Þessu háttalagi borgarfulltrúanna, það er að afneita áhrifum verðbólgunnar á skuldum vafið fyrirtækið, er best lýst sem miklu kæruleysi og innistæðulausri loforðapólitík. Og þeirra er sökin, ekki fyrrverandi stjórnenda OR. Vonandi mun uppgjörið á þeim miklu mistökum sem borgarfulltrúar úr öllum flokkum bera ábyrgð á ekki felast í því að þeir verði dómarar í eigin sök, og bendi á fyrrverandi undirmenn sína. Það væri ódýr afgreiðsla á vandamálum sem snúa fyrst og fremst að þeim sjálfum. IV. Vandi OR ætti að fá stjórnmálamenn til þess að hugsa stöðu Íslands er varðar orkuna upp á nýtt. Hann varpar ljósi á eitt atriði, sem full ástæða er til þess að ræða til fulls. Það er þetta: Skattgreiðendur eru í ábyrgðum fyrir áhættumikil afleiðuviðskipti þar sem allt stendur og fellur með því að aðgengi að erlendu lánsfé sé galopið og afsláttarkjör vegna ríkisábyrgðar bjóðist. Þetta á við um OR og Landsvirkjun og viðskipti þeirra er tengjast raforkusölu til stónotenda. Samanlagðar skuldir fyrirtækjanna eru nálægt 600 milljörðum króna, en arðgreiðslur til eigenda hafa sáralitlar verið í hlutfalli við umfang reksturs. Í ljósi þess að ríkisábyrgðir eru ekki lengur ávísun á góð vaxtakjör, og verða ekki í bráð, þá þarf að endurskipuleggja þennan hluta orkugeirans upp á nýtt. Þessi hluti orkugeirans samræmist ekki almannahlutverkinu, um að útvega almenningi orku á góðum kjörum. Þetta er önnur starfsemi sem ber mikla fjárhagslega áhættu og byggist að stóru leyti á sérfræðikunnáttu í flóknum afleiðuviðskiptum, greiningum á hrávörumörkuðum erlendis og síðan fjárhagslegu trausti erlendra banka. Um 80% af raforku sem framleidd er á Íslandi fer í álverin þrjú sem starfrækt eru í landinu. Hitt fer til almennings í samræmi við almannahlutverk. Mikilvægt er að mínu mati að áhættan af þeim hluta raforkusölunnar, sem augljóslega samræmist ekki almannahlutverkinu, sé takmörkuð með skynsamlegum aðgerðum. Umræðan um sölu á eignarhlut í Landsvirkjun ætti að tengjast þessu, fremur en þrasi um pólitík út frá vinstri eða hægri sjónarhól. (Ég skrifaði um þetta atriði í pistli sem birtist hér á Vísi á dögunum sem má nálgast hér.) Almennt held ég að allir séu sammála um, að Ísland standi frammi fyrir miklum tækifærum þegar kemur að orkuauðlindum landsins. Tækifærin felast ekki bara í dollaramerkjum í augum, heldur ekki síður í því að setja nýtingu og vernd náttúruauðlinda skynsamlegan ramma, endurskipuleggja aðkomu skattgreiðenda að þeirri miklu áhættu sem tengist sölu á raforku til stórnotenda og jafnvel að reyna að auka margfeldisáhrifin af þessari starfsemi fyrir hagkerfið. T.d. þegar kemur að ávöxtun sparifjár og lífeyris. V. Á þessum tímum er orkugeirinn eitthvað sem fólk ætti að tala um yfirvegað fremur en með upphrópunum. Það er innihaldslaus froða að segja að breytingar á eignarhaldi og ábyrgð á áhættusömum afleiðuviðskiptum með raforku þurfi að teljast til sölu „auðlinda úr landi" eins og sumir hafa gefið í skyn. Orkuauðlindir í almannaeigu eiga að mínu mati að vera það áfram. Eins og staða mála er núna fer langsamlega stærsti hluti tekna af sölu raforku beint til útlanda í gegnum fjármagnskostnað. Það þarf ekki að vera þannig og full ástæða til þess að kanna hvaða möguleikar eru í boði, þegar kemur að fjármögnun framkvæmda og dreifingu á áhættu almennt, sem getur leitt til meiri virðisauka fyrir hagkerfið í heild heldur en raunin er nú. Hvernig sem stefnan í þessum málaflokki verður til framtíðar er ólíklegt að við getum eyðilagt stærsta einstaka þátt góðra lífskjara hér á landi, sem er ódýrt aðgengi að hita, vatni og rafmagni. Sá kostnaður verður líklega áfram margfalt lægri hér en þekkist í öðrum löndum. En það er blikur á lofti og sitt sýnist hverjum. Meiningarmunurinn hefur ekki síst birst í fréttum og viðtölum á Stöð 2 og Vísi upp á síðkastið, t.d. hjá Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra. Þeirra skoðanir munu ekki ráða för þegar til lengdar er litið, heldur sú stefna sem stjórnmálamenn koma sér saman um, þverpólitískt. Annað er dæmt til þess að mistakast, eins og útafakstur OR af braut sinni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Halldórsson Mest lesið Isavia sóar fjármagni í eigin ímynd Skúli Gunnar Sigfússon Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Vöruhúsið í Álfabakka - í boði hvers? Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Forseti ASÍ á skautum Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera vín? Guðmundur Stefán Gunnarsson Skoðun Helvítis væl alltaf í þessum kalli Hólmgeir Baldursson Skoðun Ísland undaskilið alþjóðlegum kolefniskvóta Ólafur Ágúst Hraundal Skoðun Yrkjum lífsgæði í Dölunum Björn Bjarki Þorsteinsson Skoðun Stórkostlega ungur Kristján Friðbert Friðbertsson Skoðun Það næst ekki í lækni, það verður vonandi úrskurðað um andlát á morgun eða hinn Bjarki Oddsson Skoðun
Það er algengt á Norðurlöndunum að kostnaður við hita og rafmagn í 120 fermetra íbúð fari upp í hundrað þúsund krónur á mánuði þegar það verður kalt úti. Jafnvel meira. Hér á Íslandi fer þessi sami kostnaður sjaldnast yfir sex þúsund krónur, við sömu aðstæður. Gengisfallið hefur ýkt þennan mun, í krónum talið, en sé horft framhjá því er hann samt margfaldur erlendis miðað við hér á landi. Ástæðan liggur í mestu auðlind sem Ísland á; náttúrulegum orkuauðlindum sem nýtast til húshitunar og rafmagnsframleiðslu fyrir miklu lægri tilkostnað en þekkist í nær öllum öðrum löndum, bæði hvað varðar umhverfislegan kostnað og síðan beinan fjárhagslegan kostnað. Án þess að lítið sé gert úr öðrum styrkleikum Íslands þá held ég að ekkert geti talist jafnmikil lífskjarabót fyrir almenning eins og fyrrnefnt atriði. Maður gleymir þessu stundum, en það er hollt að minna sig á þetta, ekki síst nú á tímum.Skipbrot Í þessu samhengi verður skipbrot Orkuveitu Reykjavíkur fyrr á þessu ári að skoðast. Ótrúlegt er að hugsa til þess að svo illa hafi getað farið fyrir jafn stöndugum grunnrekstri í almannaeigu með gagnsæ markmið og auðskiljanlegar samþykktir. Að mínu mati er það mesta pólitíska hneyksli sem komið hefur upp á sveitarstjórnarstiginu í landinu nokkru sinni. Þetta eru vafalítið stór orð að mati einhverra, en samt finnst mér þau fremur lítil, þegar horft til þess hvernig borgarfulltrúar í Reykjavík rústuðu fyrirtækinu með tilheyrandi neikvæðum fjárhagslegum afleiðingum. Engum er um að kenna nema borgarfulltrúunum sjálfum. Þeir mörkuðu stefnuna sem leiddi til þess að OR hvarf útaf réttri braut og endaði í fjárhagslegri gjörgæslu, þar sem fyrirtækið verður í nokkur ár til viðbótar, á meðan traust lánveitenda er endurunnið. Vandamál OR sem leiddi fyrirtækið í vandræði er í sjálfu sér einfalt. Fyrirtækið fór að stunda áhætturekstur sem samræmist ekki samþykktum og lögum sem gilda um fyrirtækið. Og þessi áhætta reyndist ekki borga sig, endaði raunar með ósköpum. Nokkur atriði er þessu tengjast: I. Orkuveitan hóf að stunda óskyldan rekstur en samræmist lögum um fyrirtækið og áratugalangri hefð. Það fór að virkja fyrir önnur verkefni en þau sem snerta það hlutverk, að útvega almenningi vatn og rafmagn á góðum kjörum. Í staðinn varð OR umsvifamikið fyrirtæki á sviði afleiðuviðskipta, þar sem stofnað var til tugmilljarða skulda í öðrum myntum en þeirri sem fyrirtækið hefur um 80% tekna sinna í, og á það veðjað að framtíðartekjur yrðu svo miklar að þær myndu duga fyrir öllu saman án þess að of mikil áhætta hlytist af. Þetta reyndist rangt. Það sem blindaði mönnum sýn, að mínu mati, var algjörlega opið aðgengi að ódýru lánsfé m.a. vegna opinberar ábyrgðar á skuldum fyrirtækisins. Borgarfulltrúarnir, þvert á flokka, fóru með fyrirtækið útaf brautinni sem lög og reglur fyrirtækisins segja til um. Alþjóðlegir Lánveitendur voru tilbúnir að bjóða verulegan afslátt á vaxtakjörum vegna þess að það var litið svo á að það væri alltaf hægt að fara ofan í vasa eigenda fyrirtækisins, skattgreiðenda, og borga skuldirnar með þeim peningum, ef OR væri með tóma vasa. Þetta reyndist vera rétt mat hjá lánveitendum, þeir fá sitt til baka, en með hjálp gjaldskrárhækkana og peningaframlags frá eigendum fyrirtækisins, auk eignasölu, uppsagna og endurskipulagningar á rekstri. II. Eftir hrun fjármálakerfisins og krónunnar stóðu skuldir OR í um 240 milljörðum króna og höfðu margfaldast á nokkrum árum. Skuldir OR voru stór hluti allra skulda sveitarstjórnarstigsins á Íslandi. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins, sem yfir margra ára tímabil hafði verið í kringum 50 til 60%, gufaði upp. Skuldaaukninguna má ekki rekja til gengisfallsins eingöngu, heldur ekki síður til nýrra skuldbindinga sem borgarfulltrúarnir tóku ákvörðun um að stofna til. Það var ráðist í virkjanaframkvæmdir og stefnt að sölu á raforku til stóriðju, sem síðan átti að borga allt til baka. Þessi verkefni eru enn í óvissu, og óvíst hvernig leyst verður úr þeirri stöðu. Til langs tíma ættu þetta vera að góðar fjárfestingar, en það á raunar við um flest allar framkvæmdir sem tengjast styrkingu innviða. Það er hins vegar ekki hægt að ráðast út í miklar framkvæmdir öðruvísi en að eiga fyrir því. Forgangsröðun og framtíðarsýn er það sem mestu skiptir í þeim efnum. Hana hefur skort hjá borgarfulltrúunum sem markað hafa stefnu OR. Í það minnsta þar til nú, en Bjarni Bjarnason forstjóri og forveri hans Helgi Þór Ingason, virðast hafa gert sér miklu betur grein fyrir stærð vandamáls fyrirtækisins heldur en borgarfulltrúarnir. Þeir hafa enda mikla reynslu á þessu sviði, og mikla sérhæfða verkfræðimenntun sem eflaust hefur hjálpað þeim að búa til áætlanir um að leysa vandamálin. Það hefur líka verið rétt ákvörðun hjá Jóni Gnarr borgarstjóra að skipta sér lítið af einstaka ákvörðunum, í ljósi þess að hann hefur augljóslega ekki nægilega þekkingu á málefninu. En það á við um fleiri, líklega flesta borgarfulltrúana sem sitja í stjórn fyrirtækisins. Það er styrkleikamerki stjórnenda að gera sér grein fyrir takmörkunum sínum og færa verkefni í hendur þeirra sem betur til þekkja. Nákvæmlega það hefur skipt mál að undanförnu við að laga rekstur OR og gera áætlun til langs tíma um að koma fyrirtækinu á rétta braut.Hring eftir hring Það má síðan líka nefna, að OR fór inn í rækjueldi og fleira – að ógleymdu REI – sem með engu móti tengdist rekstri OR samkvæmt lögum og samþykktum sem gilda um fyrirtækið. Árum saman hefur fyrirtækið líka átt taprekstur sem bundinn hefur verið í glerhýsi sem snýst í hringi í Öskjuhlíðinni. Núna er verið að selja það, því betur, en það er eins og fyrri daginn með sölu á eignum í eigu almennings; stjórnmálamenn þurfa alltaf að klúðra því. Í það minnsta er fyrirsjáanlegt að salan á glerhýsinu muni snúa mörgum borgarfulltrúum í hringi áður en skattgreiðendur eru leystir undan þessum glórulausa rekstri sem kemur almannahlutverki OR ekkert við og samræmist ekki grunnstarfsemi fyrirtækisins. III. Eðlilega hafa borgarfulltrúarnir í Reykjavík spurt; hvernig gat þetta gerst? Athugun á því hefur leitt til gerð skýrslu, sem m.a. hefur verið fjallað um ítarlega í Kastljósi RÚV. Í stórum dráttum var margt í ólestri í rekstri fyrirtækisins. Það er alveg sama hvað verða skrifaðar margar skýrslur um OR eða REI. Eitt atriði blasir við og er mikilvægt að halda til haga: Vanda OR má rekja til rangra ákvarðana borgarfulltrúa, ekki einstaka starfsmanna OR. Þeir framkvæmdu stefnu borgarfulltrúana, sem var í öllum meginatriðum röng. Ég hef í nokkur ár fylgst með orkumálum sem blaðamaður og tekið viðtöl við ýmsa sem tengjast orkugeiranum með ýmsum hætti. Nokkur samtöl við Önnu Skúladóttur, fyrrverandi fjármálastjóra OR, og Hjörleif Kvaran, fyrrverandi forstjóra OR, eru eftirminnileg, ekki síst í ljósi þess sem síðar gerðist. Þau sögðu mér bæði að þau hefðu margítrekað bent á nauðsyn þess að láta gjaldskrá OR fylgja breytingum á vísitölu neysluverðs, verðbólgu. Stjórnmálamennirnir í stjórninni stoppuðu það alltaf, töldu sig vera að vinna góðverk með því að halda gjöldunum niðri. Þegar síðan fór að kreppa að þá var um margra ára skeið búið að trassa að láta gjaldskrána í það minnsta samræmast verðbólgubreytingum frá einum tíma til annars, og munaði þar tugum prósenta. Þetta gróf undan sjálfum grunnrekstrinum og dýpkaði vanda fyrirtækisins, vegna þess að gjaldskrárhækkanir í því erfiða árferði sem hér hefur ríkt að undanförnu eru ekki sjálfsagðar. Þessu háttalagi borgarfulltrúanna, það er að afneita áhrifum verðbólgunnar á skuldum vafið fyrirtækið, er best lýst sem miklu kæruleysi og innistæðulausri loforðapólitík. Og þeirra er sökin, ekki fyrrverandi stjórnenda OR. Vonandi mun uppgjörið á þeim miklu mistökum sem borgarfulltrúar úr öllum flokkum bera ábyrgð á ekki felast í því að þeir verði dómarar í eigin sök, og bendi á fyrrverandi undirmenn sína. Það væri ódýr afgreiðsla á vandamálum sem snúa fyrst og fremst að þeim sjálfum. IV. Vandi OR ætti að fá stjórnmálamenn til þess að hugsa stöðu Íslands er varðar orkuna upp á nýtt. Hann varpar ljósi á eitt atriði, sem full ástæða er til þess að ræða til fulls. Það er þetta: Skattgreiðendur eru í ábyrgðum fyrir áhættumikil afleiðuviðskipti þar sem allt stendur og fellur með því að aðgengi að erlendu lánsfé sé galopið og afsláttarkjör vegna ríkisábyrgðar bjóðist. Þetta á við um OR og Landsvirkjun og viðskipti þeirra er tengjast raforkusölu til stónotenda. Samanlagðar skuldir fyrirtækjanna eru nálægt 600 milljörðum króna, en arðgreiðslur til eigenda hafa sáralitlar verið í hlutfalli við umfang reksturs. Í ljósi þess að ríkisábyrgðir eru ekki lengur ávísun á góð vaxtakjör, og verða ekki í bráð, þá þarf að endurskipuleggja þennan hluta orkugeirans upp á nýtt. Þessi hluti orkugeirans samræmist ekki almannahlutverkinu, um að útvega almenningi orku á góðum kjörum. Þetta er önnur starfsemi sem ber mikla fjárhagslega áhættu og byggist að stóru leyti á sérfræðikunnáttu í flóknum afleiðuviðskiptum, greiningum á hrávörumörkuðum erlendis og síðan fjárhagslegu trausti erlendra banka. Um 80% af raforku sem framleidd er á Íslandi fer í álverin þrjú sem starfrækt eru í landinu. Hitt fer til almennings í samræmi við almannahlutverk. Mikilvægt er að mínu mati að áhættan af þeim hluta raforkusölunnar, sem augljóslega samræmist ekki almannahlutverkinu, sé takmörkuð með skynsamlegum aðgerðum. Umræðan um sölu á eignarhlut í Landsvirkjun ætti að tengjast þessu, fremur en þrasi um pólitík út frá vinstri eða hægri sjónarhól. (Ég skrifaði um þetta atriði í pistli sem birtist hér á Vísi á dögunum sem má nálgast hér.) Almennt held ég að allir séu sammála um, að Ísland standi frammi fyrir miklum tækifærum þegar kemur að orkuauðlindum landsins. Tækifærin felast ekki bara í dollaramerkjum í augum, heldur ekki síður í því að setja nýtingu og vernd náttúruauðlinda skynsamlegan ramma, endurskipuleggja aðkomu skattgreiðenda að þeirri miklu áhættu sem tengist sölu á raforku til stórnotenda og jafnvel að reyna að auka margfeldisáhrifin af þessari starfsemi fyrir hagkerfið. T.d. þegar kemur að ávöxtun sparifjár og lífeyris. V. Á þessum tímum er orkugeirinn eitthvað sem fólk ætti að tala um yfirvegað fremur en með upphrópunum. Það er innihaldslaus froða að segja að breytingar á eignarhaldi og ábyrgð á áhættusömum afleiðuviðskiptum með raforku þurfi að teljast til sölu „auðlinda úr landi" eins og sumir hafa gefið í skyn. Orkuauðlindir í almannaeigu eiga að mínu mati að vera það áfram. Eins og staða mála er núna fer langsamlega stærsti hluti tekna af sölu raforku beint til útlanda í gegnum fjármagnskostnað. Það þarf ekki að vera þannig og full ástæða til þess að kanna hvaða möguleikar eru í boði, þegar kemur að fjármögnun framkvæmda og dreifingu á áhættu almennt, sem getur leitt til meiri virðisauka fyrir hagkerfið í heild heldur en raunin er nú. Hvernig sem stefnan í þessum málaflokki verður til framtíðar er ólíklegt að við getum eyðilagt stærsta einstaka þátt góðra lífskjara hér á landi, sem er ódýrt aðgengi að hita, vatni og rafmagni. Sá kostnaður verður líklega áfram margfalt lægri hér en þekkist í öðrum löndum. En það er blikur á lofti og sitt sýnist hverjum. Meiningarmunurinn hefur ekki síst birst í fréttum og viðtölum á Stöð 2 og Vísi upp á síðkastið, t.d. hjá Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra. Þeirra skoðanir munu ekki ráða för þegar til lengdar er litið, heldur sú stefna sem stjórnmálamenn koma sér saman um, þverpólitískt. Annað er dæmt til þess að mistakast, eins og útafakstur OR af braut sinni.
Það næst ekki í lækni, það verður vonandi úrskurðað um andlát á morgun eða hinn Bjarki Oddsson Skoðun
Það næst ekki í lækni, það verður vonandi úrskurðað um andlát á morgun eða hinn Bjarki Oddsson Skoðun