Körfubolti

Stjörnumenn enduðu sigurgöngu Stólanna í Síkinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse var öflugur í kvöld.
Justin Shouse var öflugur í kvöld.
Stjörnumenn komust upp í fimmta sæti Iceland Express deild karla eftir tólf stiga sigur á Tindastól í Síkinu í kvöld, 90-78, en þetta var fyrsta tap Stólanna á heimavelli síðan í lok október eða í sjö leikjum.

Justin Shouse skoraði 27 stig fyrir Stjörnuliðið sem fór aðeins með átta leikmenn norður. Renato Lindmets var með 14 stig og Marvin Valdimarsson skoraði 12 stig. Friðrik Hreinsson skoraði 20 stig fyrir Tindastól og Sean Cunningham var með 17 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar.

Eftir jafna byrjun tók Tindastóll frumkvæðið með því að skora sjö stig í röð og komast í 13-7 eftir fimm mínútna leik. Tindastóll komst í framhaldinu í 21-11 en Stjarnan náði að minnka muninn í 21-15 með því að skora fjögur síðustu stig fyrsta leikhlutans.

Tindastóll komst í 24-15 í upphafi annars leikhluta en þá komu átta stiga Stjörnumanna í röð og það munaði síðan ekki miklu á liðunum síðustu sex mínútur hálfleiks. Tindastóll skoraði að lokum síðustu körfu fyrri hálfleiks og var einu stigi yfir í hálfleik, 32-31.

Liðin skiptust á um forustuna í upphafi þriðja leikhlutans en Stjörnumenn tóku síðan frumkvæðið og voru átta stigum yfir eftir hann, 61-53. Renato Lindmets fór á kostum í leikhlutanum og skoraði 11 stig í honum.

Stjörnumenn náðu ellefu stiga forskoti í upphafi fjórða leikhluta og eftir það var á brattann að sækja hjá Stólunum sem urðu að lokum að sætta sig við fyrsta heimatapið í langan tíma. Stjörnuliðið vann þarna flottan útisigur og fór með því upp fyrir Hauka í töflunni.



Tindastóll-Stjarnan 78-90 (21-15, 11-16, 21-30, 25-29)


Tindastóll: Friðrik Hreinsson 20, Sean Kingsley Cunningham 17/8 fráköst/6 stoðsendingar, Hayward Fain  11/10 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Dragoljub Kitanovic 10/6 fráköst, Svavar Atli Birgisson 9/4 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 9/17 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 2.

Stjarnan: Justin Shouse 27, Renato Lindmets 14, Jovan Zdravevski 13/6 fráköst, Marvin Valdimarsson 12/8 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 9, Fannar Freyr Helgason 6/7 fráköst, Guðjón Lárusson 5/6 fráköst, Ólafur Aron Ingvason 4/6 fráköst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×