Hálfrar aldar vandræðagangur Ólafur Þ. Stephensen skrifar 28. janúar 2011 08:04 Það eru út af fyrir sig engin ný tíðindi að ófremdarástand sé í fangelsismálum á Íslandi. Undanfarið hefur hins vegar keyrt um þverbak, eins og Fréttablaðið hefur sagt frá í vikunni. 165 afplánunarfangar eru vistaðir í 150 plássum í fangelsum landsins. Tvímennt er í afplánunarklefum. Gæsluvarðhaldsföngum fer fjölgandi og stundum er ekki pláss fyrir þá í fangelsunum, heldur þarf að geyma þá á lögreglustöðvum. Það gerist oft í viku að fresta þarf afplánun manna sem hafa verið boðaðir með löngum fyrirvara til að sitja af sér refsingu. Dæmi eru um að menn hafi mætt til afplánunar en verið vísað frá. Yfir 300 manns eru á boðunarlista Fangelsismálastofnunar; hafa fengið dóm en ekki tækifæri til að sitja hann af sér. Sumir fangar sitja af sér dóma í ólöglegu og heilsuspillandi húsnæði, sem alþjóðlegar eftirlitsnefndir með ómannúðlegri meðferð á föngum hafa dæmt óhæft og er á undanþágu frá Heilbrigðiseftirlitinu. Vegna þess að ekkert gæzluvarðhaldsfangelsi er í Reykjavík, þarf lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að aka með gæzluvarðhaldsfanga 120 kílómetra leið frá Eyrarbakka og aftur til baka til að færa þá til yfirheyrslu. Í meira en hálfa öld, eða frá 1960, hefur nýtt fangelsi í Reykjavík verið á teikniborðinu. Teikningarnar eru reyndar orðnar allmargar, því að hringlandinn í málinu hefur verið með ólíkindum. Nú hillir loksins undir að nýtt fangelsi verði byggt; innanríkisráðherrann hefur boðað að framkvæmdir við fangelsi á Hólmsheiði hefjist á þessu ári. Á þessari hálfu öld hafa risið alls konar byggingar á vegum ríkisins, sem hafa mun minna með grundvallarhlutverk þess að gera þótt margar séu þær miklu stærri, íburðarmeiri og dýrari en nýtt fangelsi. Það hlutverk ríkisins sem menn deila sízt um er að halda uppi lögum og reglu, tryggja öryggi borgaranna og að þeir sem ógna því séu teknir úr umferð og fái makleg málagjöld. Ástandið í fangelsismálum hefur brotið gegn rétti fórnarlamba afbrota og réttarvitund almennings, með því að menn sem hafa hlotið fangelsisdóm hafa gengið lausir misserum og jafnvel árum saman áður en þeir hafa loksins verið boðaðir í afplánun. Um leið er ástandið brot á mannréttindum þeirra sem hafa verið dæmdir til fangelsisvistar. Í sumum tilfellum er aðbúnaður þeirra ekki boðlegur og það er sömuleiðis mannréttindabrot þegar mönnum, sem hafa jafnvel verið komnir á beinu brautina eftir að hafa snúið baki við glæpum, búnir að stofna fjölskyldu og fá vinnu, er löngu eftir að dómur gekk kippt inn í afplánun. Bygging nýs fangelsis er því bæði réttlætis- og mannréttindamál. Þegar umfang vandans er haft í huga (300 manna boðunarlisti) og að plássin 28 í Hegningarhúsinu og í Kópavogi verða aflögð um leið og 56 pláss á Hólmsheiði komast í gagnið, blasir í raun við að ekki er nóg að gert. Í réttarríki þurfa fangelsismálin að vera í lagi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Það eru út af fyrir sig engin ný tíðindi að ófremdarástand sé í fangelsismálum á Íslandi. Undanfarið hefur hins vegar keyrt um þverbak, eins og Fréttablaðið hefur sagt frá í vikunni. 165 afplánunarfangar eru vistaðir í 150 plássum í fangelsum landsins. Tvímennt er í afplánunarklefum. Gæsluvarðhaldsföngum fer fjölgandi og stundum er ekki pláss fyrir þá í fangelsunum, heldur þarf að geyma þá á lögreglustöðvum. Það gerist oft í viku að fresta þarf afplánun manna sem hafa verið boðaðir með löngum fyrirvara til að sitja af sér refsingu. Dæmi eru um að menn hafi mætt til afplánunar en verið vísað frá. Yfir 300 manns eru á boðunarlista Fangelsismálastofnunar; hafa fengið dóm en ekki tækifæri til að sitja hann af sér. Sumir fangar sitja af sér dóma í ólöglegu og heilsuspillandi húsnæði, sem alþjóðlegar eftirlitsnefndir með ómannúðlegri meðferð á föngum hafa dæmt óhæft og er á undanþágu frá Heilbrigðiseftirlitinu. Vegna þess að ekkert gæzluvarðhaldsfangelsi er í Reykjavík, þarf lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að aka með gæzluvarðhaldsfanga 120 kílómetra leið frá Eyrarbakka og aftur til baka til að færa þá til yfirheyrslu. Í meira en hálfa öld, eða frá 1960, hefur nýtt fangelsi í Reykjavík verið á teikniborðinu. Teikningarnar eru reyndar orðnar allmargar, því að hringlandinn í málinu hefur verið með ólíkindum. Nú hillir loksins undir að nýtt fangelsi verði byggt; innanríkisráðherrann hefur boðað að framkvæmdir við fangelsi á Hólmsheiði hefjist á þessu ári. Á þessari hálfu öld hafa risið alls konar byggingar á vegum ríkisins, sem hafa mun minna með grundvallarhlutverk þess að gera þótt margar séu þær miklu stærri, íburðarmeiri og dýrari en nýtt fangelsi. Það hlutverk ríkisins sem menn deila sízt um er að halda uppi lögum og reglu, tryggja öryggi borgaranna og að þeir sem ógna því séu teknir úr umferð og fái makleg málagjöld. Ástandið í fangelsismálum hefur brotið gegn rétti fórnarlamba afbrota og réttarvitund almennings, með því að menn sem hafa hlotið fangelsisdóm hafa gengið lausir misserum og jafnvel árum saman áður en þeir hafa loksins verið boðaðir í afplánun. Um leið er ástandið brot á mannréttindum þeirra sem hafa verið dæmdir til fangelsisvistar. Í sumum tilfellum er aðbúnaður þeirra ekki boðlegur og það er sömuleiðis mannréttindabrot þegar mönnum, sem hafa jafnvel verið komnir á beinu brautina eftir að hafa snúið baki við glæpum, búnir að stofna fjölskyldu og fá vinnu, er löngu eftir að dómur gekk kippt inn í afplánun. Bygging nýs fangelsis er því bæði réttlætis- og mannréttindamál. Þegar umfang vandans er haft í huga (300 manna boðunarlisti) og að plássin 28 í Hegningarhúsinu og í Kópavogi verða aflögð um leið og 56 pláss á Hólmsheiði komast í gagnið, blasir í raun við að ekki er nóg að gert. Í réttarríki þurfa fangelsismálin að vera í lagi.