Körfubolti

Snæfell vann dramatískan sigur í toppslagnum í Grindavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Ólafur Jónsson var góður í Grindavík í kvöld.
Jón Ólafur Jónsson var góður í Grindavík í kvöld. Mynd/Stefán
Snæfell náði fjögurra stiga forskoti á toppi Iceland Express deildar karla í körfubolta eftir fjögurra stiga sigur í Grindavík, 90-86, í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar í Röstinni í kvöld. Leikurinn var frábær skemmtun og afar sveiflukenndur þar sem liðin skiptust á að ná frábærum sprettum en Snæfell vann síðustu tvær mínúturnar 13-2 og tryggði sér dramatískan sigur.

Snæfellsliðið lék án miðherja síns Ryan Amaroso (meiddur) og réð lítið við Ryan Pettinella sem var með 35 stig og 20 fráköst fyrir Grindavík í kvöld. Jón Ólafur Jónsson átti mjög góðan leik fyrir Snæfellsliðið og skoraði 26 stig en Zeljko Bojovic var með 22 stig og 10 fráköst í fyrsta leiknum í Snæfellsbúningnum.

Eftir jafnan fyrsta leikhluta skoraði Snæfell síðustu körfuna í leikhlutanum og var 28-25 yfir við lok hans. Nýi maðurinn Zeljko Bojovic skoraði 13 stig í fyrsta leikhlutanum.

Snæfell skoraði síðan sex fyrstu stig annars leikhlutans og var að lokum með fimmtán stiga froskot í hálfleik, 53-38, eftir að hafa unnið annan leikhlutann 25-13.

Helgi Jónas Guðfinnsson hélt greinilega alvöru ræðu í hálfleik því Grindavíkurliðið skoraði sextán fyrstu stig seinni hálfeiks og komst yfir í 54-53 þegar 4 mínútur og 36 sekúndur voru liðnar af hálfleiknum.

Snæfell skoraði loksins eftir 4 mínutur og 49 sekúndur og við tók æsispennandi kafli þar sem liðin skiptust á að hafa naumt forskot. Snæfell var síðan með eins stigs forskot, 68-67, fyrir lokaleikhlutann.

Það voru síðan miklar sveiflur á lokasprettinum. Grindvíkingar skoruðu átta stig í röð og breyttu stöðunni úr 74-74 í 82-74 en í stöðunni 84-77 svaraði Snæfell með ellefu stigum í röð, komst í 88-84 og lagði grunninn að sigrinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×