Körfubolti

Enn versnar staða Njarðvíkur - stigahæsti Íslendingurinn meiddur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Jónsson.
Guðmundur Jónsson.

Njarðvíkingar sitja í fallsæti í Iceland Express deild karla eftir tap á heimavelli á móti ÍR-ingum um síðustu helgi og nú er komið í ljós að þeir misstu ekki aðeins mikilvæg stig í þessum leik.

Bakvörðurinn Guðmundur Jónsson meiddist í leiknum og þau meiðsli eru það alvarleg að hann verður frá í næstu fjórar til sex vikur. Þetta kom fram á karfan.is.

Guðmundur er á leiðinni í ómskoðun og eftir hana vita Njarðvíkingar betur hversu lengi þeir verða án stigahæsta íslenska leikmanns liðsins.

„Eftir fyrstu skoðun er líklegt að hann verði frá í 4-6 vikur, nánari fréttir verða væntanlega eftir ómskoðunina," sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur í viðtali við karfan.is.

Guðmundur er með 14,5 stig, 3,3 fráköst og 2,2 stoðsendingar að meðaltali í leik í Iceland Express deild karla í vetur. Guðmundur skoraði 14 stig í leiknum á móti ÍR.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×