Á föstudagskvöldinu sýndu alls tíu hönnuðir haust- og vetrarlínur sínar og stóðu línur Eyglóar, Sruli Recht, Sonju Bent og Spaks manns spjara upp úr. Allar þessar línur innihéldu fallegar buxur og er því óhætt að spá því að síðbuxur verði vinsælar hér á landi næsta haust.
Lína Sonju Bent var áberandi glaðleg og falleg og mætti kannski kalla þennan efnilega hönnuð okkar eigin Soniu Rykiel. Báðar vinna þær mikið með prjónaflíkur og á meðan rendur einkenna gjarnan fatnað Rykiel vinnur Sonja Bent að mestu með doppur.
Lína Spaksmannsspjara virtist þó vera sú eina, fyrir utan línu Sruli, sem var greinileg haustlína og innihélt jakka, notalegar fóðraðar hettur og prjónaðar ermar. Hönnun Sruli Recht var fallega sniðin og skemmtileg og fatnaðurinn unninn úr náttúrulegum efnum eins og ull. Eygló var söm við sig og sýndi flottar flíkur með skemmtilegu beinamynstri sem kom mjög vel út.- sm







