Gagnrýni

!!!

Jónas Sen skrifar
Einhverjir bestu sinfóníutónleikar á Íslandi frá upphafi, segir gagnrýnandi.
Einhverjir bestu sinfóníutónleikar á Íslandi frá upphafi, segir gagnrýnandi.
Þrátt fyrir að tónlistarlífið á Íslandi sé afar blómlegt gefast fá tækifæri til að heyra erlendar sinfóníuhljómsveitir spila á tónleikum hérlendis. Satt best að segja man ég bara eftir tveimur tilvikum á undanförnum tuttugu eða þrjátíu árum! En með tilkomu Hörpu mun það vonandi oftar gerast. Sinfóníuhljómsveit Íslands er vissulega góð hljómsveit en hún þarfnast samanburðar við það besta sem gerist erlendis. Og við tónleikagestir þurfum líka á samanburðinum að halda. Bara svo að maður átti sig á hvað er raunverulega gott og hvað ekki.

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Gautaborgar í Eldborg í Hörpu á sunnudagskvöldið hófust á fallegu, vel ígrunduðu verki eftir Karin Rehnqvist. Það ber nafnið Tiger Touch. Tónlistin byggðist á skemmtilegum andstæðum ólíkra hljóðfærahópa sem tóku sífelldum breytingum. Laglínan flögraði á milli hljóðfæranna í ýmsum myndum og smám saman magnaðist tónlistin upp í kraftmikinn hápunkt.

Verkið var prýðilega leikið undir stjórn Gustavo Dudamel, en hann er aðeins þrítugur og er frá Venesúela. Stjórnunarstíll hans var látlaus og þægilegur. Og hann virtist svo sem ekki hafa mikið fyrir því að stjórna. Enda hljómsveitin frábær, það heyrði maður strax. Samhljómurinn var einstaklega þéttur og flottur. Kraftmiklu kaflarnir voru glæsilegir. Fínleg blæbrigði skýr og falleg.

Næst á dagskrá var klarinettukonsert í A-dúr K 622 eftir Mozart. Martin Fröst, einn færasti klarinettuleikari heims, lék einleik. Hann spilaði á basset-klarinettu, ekki bassaklarinettu eins og margir tónleikagestir virðast hafa haldið. Basset-klarinettu svipar til sópranklarinettu en nær lengra niður tónstigann. Fröst spilaði guðdómlega. Ég á ekkert annað orð yfir frammistöðu hans. Hver tónahending var unaður áheyrnar. Klarinettan var svo lifandi og litrík að það var einfaldlega frábært.

Ég verð að viðurkenna að ég hálf kveið fyrir að hlusta á síðasta verkið á dagskránni, sjöttu sinfóníu Tsjajkovskís. Hún hefur oft verið á dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og komið misvel út. Þetta er stór og alveg voðalega rómantískt tónsmíð, býsna löng og getur hæglega drepið mann úr leiðindum. Mér dettur í hug í þessu samhengi útgáfa Liberaces á fyrsta píanókonsertinum eftir Tsjajkovskí. Það var byrjunin á fyrsta kaflanum límd við endinn á þeim síðasta. Liberace sagði að hann sleppti bara þessu leiðinlega.

En hér þurfti engar styttingar. Strax í upphafstónunum datt ég inn í tónlistina. Það var eitthvað svo óskaplega fagurt við hvernig túlkunin var mótuð. Framvindan var alltaf fullkomlega eðlileg og fókusinn svo skýr að það var einstakt. Hægir og hraðir kaflar voru jafn áhrifaríkir – að vísu var hraði þriðji kaflinn algerlega geggjaður! Þá langaði mann mest til að standa upp og æpa. Í það heila var útkoman mögnuð upplifun sem lengi verður í minnum höfð.

Niðurstaða: Óhætt er að fullyrða að þetta hafi verið einhverjir bestu sinfóníutónleikar á Íslandi frá upphafi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×