Innlent

Skylda okkar að vinna í Útsvari

Ómar Stefánsson Bæjarfulltrúinn segir lið Kópavogs undanfarin tvö ár hafa verið skipuð hálfdrættingum.
Fréttablaðið/Vilhelm
Ómar Stefánsson Bæjarfulltrúinn segir lið Kópavogs undanfarin tvö ár hafa verið skipuð hálfdrættingum. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég ætlast til þess að fólk vinni keppnina,“ segir Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks í Kópavogi, sem leggur mikla áherslu á sigur bæjarins í spurningakeppninni Útsvari í Ríkissjónvarpinu.

Til að undirstrika þunga málsins lagði Ómar fram sérstaka bókun á síðasta bæjarráðsfundi.

„Það er mikilvægt að í Útsvarslið Kópavogs verði valið fólk sem vill sigra en ekki bara taka þátt. Legg því til að auglýst verði eftir ábendingum frá Kópavogsbúum í tilvonandi sigurlið bæjarins,“ bókaði Ómar. Reyndar kom í ljós eftir bæjarráðsfundinn að Útsvarslið Kópavogs hafði þegar verið mannað.

„Þetta er víst úrvalslið núna og ég hef heyrt að það stundi stífar æfingar. Ég hef meiri væntingar til þess en að HK verði Íslandsmeistari í handbolta,“ segir Ómar.

Kópavogur vann Útsvarskeppnina tvö fyrstu árin en næstu tvö árin þar á eftir ekki. „Þetta voru hálfdrættingar og fengu ekki fullan hlut,“ lýsir Ómar Útsvarsliði Kópavogs síðustu tvö árin. Hann segir hins vegar að knattspyrnulið Breiðabliks hafi haldið uppi heiðri bæjarins undanfarin tvö ár með því að vinna fyrst bikarmeistaratitil og síðan Íslandsmeistaratitil í fyrra. Í ár sé slíku ekki að heilsa.

„Kópavogur er nafli alheimsins og það er ábyrg skylda okkar að minna á okkur reglulega. Við erum alltaf bestir í einhverju á hverju ári,“ segir Ómar Stefánsson.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×