Innlent

Nærri 400 kvartanir borist í ár

Tryggvi Gunnarsson
Tryggvi Gunnarsson
Kvörtunum til umboðsmanns Alþingis hefur fjölgað verulega á árinu. Embættið hefur fengið fleiri kvartanir það sem af er ári en allt árið í fyrra, en þá bárust um 370 kvartanir.

„Álagið á alla stjórnsýsluna hefur aukist verulega eftir hrun, og þar með eykst álagið hjá okkur,“ segir Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Embættið hefur eftirlit með því að stjórnsýsla ríkis og sveitarfélaga sé í samræmi við lög.

Tryggvi segir að vel hafi gengið að afgreiða þau mál sem embættið geti ekki fjallað um, og að senda fyrirspurnir vegna þeirra mála sem umboðsmaður taki til umfjöllunar. Vandinn sé einkum sá að lengri tíma taki að ljúka þyngri málum sem embættinu berist.

Í samantekt umboðsmanns kemur fram að alls hafi 353 kvartanir borist fyrstu átta mánuði ársins. Að auki hafi umboðsmaður tekið sex mál til athugunar að eigin frumkvæði. Þetta sé um 42 prósenta aukning samanborið við sama tíma í fyrra. Árið 2010 hafi embættinu borist 248 kvartanir fyrstu átta mánuði ársins, auk þess sem umboðsmaður hafi tekið upp sjö mál að eigin frumkvæði.

Í ágúst lauk umboðsmaður athugun á 31 máli, þar af lauk einu með skriflegu áliti. Nýjar kvartanir í mánuðinum voru 61 talsins.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×