Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, var í gærdag úrskurðaður í einnar viku gæsluvarðhald vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á meintum brotum í rekstri bankans fyrir hrun.
Tveir aðrir Glitnismenn, Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri á markaðsviðskiptasviði, og Ingi Rafnar Júlíusson, sem starfaði á verðbréfasviði bankans, voru leiddir fyrir dómara í héraðsdómi Reykjavíkur í gærkvöldi. Þar var fallist á kröfu saksóknara um einnar viku gæsluvarðhald yfir þeim.
Jóhannes starfar enn hjá Íslandsbanka en hefur verið sendur í leyfi vegna málsins líkt og aðrir núverandi starfsmenn bankans sem fengið hafa réttarstöðu grunaðra í rannsókninni, samkvæmt upplýsingum frá bankanum. Ingi Rafnar starfar nú hjá MP banka, eftir að deildin sem hann tilheyrði hjá Sögu fjárfestingabanka var keypt yfir til MP.
Farið var fram á varðhald yfir fjórða manninum, Elmari Svavarssyni, en héraðsdómur hafnaði þeirri beiðni.
Gæsluvarðhaldskröfurnar voru settar fram á grundvelli rannsóknarhagsmuna, enda telur sérstakur saksóknari að mennirnir geti spillt rannsókninni með því að ráðfæra sig við aðra sakborninga gangi þeir lausir. Enn á eftir að taka skýrslur af lykilmönnum í málinu.
Rannsóknin snýr að umfangsmikilli markaðsmisnotkun og öðrum brotum í rekstri bankans. Viðskiptin sem til rannsóknar eru nema mörgum tugum milljarða og tengjast að stórum hluta FL Group. Yfirheyrslurnar í gær snerust jafnframt um svokallað Stím-mál, sem Jóhannes Baldursson er talinn hafa átt stóran þátt í.
Aðgerðirnar, sem hafa verið í undirbúningi um nokkurt skeið, hófust klukkan sjö í gærmorgun með handtökum og alls voru á annan tug manna yfirheyrðir. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, kveðst búast við að yfirheyrslunum verði fram haldið næstu daga. - sh
Rannsaka Glitni og FL Group – þrír Glitnismenn í varðhald

Mest lesið

Kjarasamningur kennara í höfn
Innlent

Engin röð á Læknavaktinni
Innlent





Reykjavík ekki ljót borg
Innlent


