Körfubolti

Hamar lét Andre Dabney fara í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Dabney.
Andre Dabney. Mynd/Valli
Hamar hefur ákveðið að skipta um bandarískan leikmann en Andre Dabney var látinn fara frá liðinu í gær. Dabney skoraði tíu stig í tapi Hamars á móti Fjölni á föstudagskvöldið og klikkaði þá á 10 af 13 skotum sínum. Hamar er að leita að nýjum kana en næsti leikur liðsins er á móti Keflavík um næstu helgi.

Hamar hefur tapað sex leikjum í röð í Iceland Express deildinni eftir að hafa unnið fimm af fyrstu átta leikjum tímabilsins. Dabney hefur ekki náð að fylgja eftir góðri byrjun sinni í vetur og það hefur haft greinileg áhrif á leik Hvergerðinga.

Dabney var með 24,4 stig og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu átta leikjunum en hefur verið bara með 16,7 stig og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í taphrinunni.

Andre Dabney var á sínu öðru ári með Hamarsliðinu en hann var stigahæsti leikmaður Iceland Express deildarinnar á síðasta tímabili með 25,5 stig í leik.

Hamar er í 10. sæti deildarinnar með jafnmörg stig og ÍR og Fjölnir en hefur tapað öllum þremur innbyrðisleikjum sínum á móti þessum fyrrnefndu félögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×