Sláturfélag Suðurlands hefur breytt verklagi sínu og ætlar ekki lengur að láta upplýsingar frá seljendum rekstrarvara nægja heldur mun það í framtíðinni krefjast staðfestingar frá framleiðendum á að viðkomandi vörur séu hæfar til matvælaframleiðslu.
SS er á meðal þeirra fyrirtækja sem hafa fengið iðnaðarsalt frá Ölgerðinni og notað til matvælaframleiðslu. Í tilkynningu frá félaginu segir að frá því í apríl 2011 hafi SS eingöngu notað vottað matvælasalt til framleiðslunnar.
„Fyrir þann tíma var keypt salt af Ölgerðinni sem SS var selt til matvælaframleiðslu. Vegna þeirra mistaka sem hér hafa orðið hefur SS breytt verklagi sínu og lætur ekki lengur nægja upplýsingar frá seljendum rekstrarvara heldur krefst staðfestingar frá framleiðendum á að viðkomandi rekstrarvörur séu hæfar til matvælaframleiðslu."
