Innlent

Öll vitnin telja að ómögulegt hafi verið að minnka bankakerfið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þriðji dagurinn í aðalmeðferð yfir Geir Haarde er í dag.
Þriðji dagurinn í aðalmeðferð yfir Geir Haarde er í dag. mynd/ anton brink.
Allir þeir sem hafa nú þegar borið vitni í máli Alþingis gegn Geir Haarde telja að það hafi verið ómögulegt fyrir bankana að minnka efnahagsreikning sinn með því að selja eignir.

Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, Arnór Sighvatsson, fyrrverandi aðalhagfræðingur Seðlabankans og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, báru allir vitni í Landsdómi í gær. Í dag hafa svo bæst í hópinn þeir Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.

Allir hafa þeir verið spurðir út í ákærulið 1.4. Samkvæmt þeim ákærulið er Geir gefið að sök að hafa vanrækt að hafa frumkvæðið að því að með virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins reynt að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikninga sína eða að einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.

Vitnisburður fimmmenninganna hefur verið á einn veg. Ef þeir hefðu selt eignir undir þeim kringumstæðum sem voru hefðu orðið svo mikil afföll að um brunaútsölu á eignum hefði verið að ræða. Það hefði ýtt undir fall bankanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×