Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóri, segir að hann hafi talið vinnu samráðshóps um fjármálastöðugleika vera mjög gagnleg. Hann geri ekki athugasemdir við það hvernig hópnum hafi verið stýrt. Þetta kom fram í máli Ingimundar í vitnaleiðslum fyrir landsdómi í morgun. Ingimundur átti sjálfur sæti í hópnum fyrir hönd Seðlabankans.
Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, er meðal annars gagnrýndur fyrir það að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.
Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari spurði Ingimund hvort hann teldi að skortur á pólitískri stefnumörkun hefði hamlað starfi hópsins. Ingimundur sagðist ekki telja að svo hefði verið. „Menn geta alltaf verið vitrir eftir á. En ég vek athygli á því að sumarið 2008 var hafin vinna við gerð frumvarpa sem siðar varð hluti að neyðarlögunum" sagði Ingimundur aðspurður um það hvort vinna samráðshópsins hefði getað verið markvissari.
Andri Árnason, verjandi Geirs, spurði Ingimund hvort hann sjálfur eða einhver úr Seðlabankanum hafi komið á framfæri kvörtunum yfir verkstjórn í samráðshópnum. Ingimundur kvað svo ekki hafa verið.
Innlent