Telma Hjaltalín Þrastardóttir, leikmaður Vals í Pepsi-deildinni, er ein sú allra fljótasta í deildinni. Eldfljóti Mosfellingurinn kom inn á sem varamaður gegn Selfossi í síðustu umferð, stakk sér í tvígang inn fyrir vörnina og tryggði Val 4-1 sigur með tveimur mörkum.
Kolbeinn Tumi Daðason hitti Telmu, sem er aðeins 17 ára, á æfingu með Valsliðinu. Ástæða þess að hún gekk til liðs við Val var til umræðu og einnig ævintýri hennar í Noregi en Telma varð bikarmeistari með Stabæk á síðustu leiktíð.
Hraði Telmu var svo prófaður gegn Matarr Jobe, leikmanni karlaliðs Vals. Matarr eða Nesta eins og hann er betur þekktur er bæði eldfljótur og afar sterklega byggður. Sjón er sögu ríkari.
