Sport

Bolt að komast í Ólympíugírinn - hljóp 100 m á 9.76 sek.í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Usain Bolt.
Usain Bolt. Mynd/Nordic Photos/Getty
Usain Bolt náði besta tíma ársins og áttunda besta tíma sögunnar þegar hann hljóp 100 metrana á 9.76 sekúndum á móti í Róm í kvöld. Bolt hljóp á miklu betri tíma en í síðustu viku þegar hann kom í mark á "aðeins" 10.04 sekúndum á móti í Ostrava.

Asafa Powell, fyrrum heimsmetshafi, varð annar á 9,91 sekúndum og í þriðja sæti varð Evrópumeistarinn Christophe Lemaitre frá Frakklandi á 10,04 sekúndum.

Usain Bolt hafði best hlaupið hundrað metrana á 9.82 sekúndum á þessu ári en heimsmetið hans frá því í Berlín 2009 er upp á 9,58 sekúndur. Aðeins tveir aðrir menn hafa hlaupið hundrað metrana hraðar en Bolt gerði í kvöld en það eru þeir Tyson Gay (9.69 sek.) og Asafa Powell (9.72 sek.).

Eftir "slakt" hlaup í síðustu viku höfðu einhverji áhyggjur af stöðu mála hjá Usain Bolt fyrir Ólympíuleikana í London en það er ljóst á þessu hlaupi að fljótasti maður heims er að komast í Ólympíugírinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×