Körfubolti

Miami í úrslitin annað árið í röð - Boston-liðið bensínslaust í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Miami Heat er komið í úrslitaeinvígið um NBA-titilinn eftir 13 stiga sigur á Boston Celtics, 101-88, í oddaleik í Miami í nótt í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar. Miami mætir Oklahoma City Thunder í lokaúrslitunum og fyrsti leikurinn er á þriðjudagskvöldið.

Miami Heat er komið í úrslitaeinvígið annað árið í röð en liðið tapaði fyrir Dallas Mavericks í lokaúrslitunum í fyrra. LeBron James hitti ekki eins vel og í leik sex en var engu að síður með 31 stig og 12 fráköst. Dwyane Wade var með 23 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar og Chris Bosh kom með 19 stig og 8 fráköst af bekknum. Bosh var að margra mati mikilvægasti leikmaður leiksins því framlag hans vóg þungt.

Rajon Rondo var með þrefalda tvennu, 22 stig, 10 fráköst og 14 stoðsendingar, en það dugði ekki til. Paul Pierce skoraði 19 stig og Brandon Bass var með 16 stig. Þetta var líklega síðasti leikur liðsins með alla þá þrjá stóru innanborðs, Kevin Garnett, Ray Allen og Pierce.

Boston-liðið var í góðum gír í fyrri hálfleik og skipti þar engu þótt að liðið missti Kevin Garnett í villuvandræði snemma í öðrum leikhluta. Brandon Bass (14 stig), Paul Pierce (13 stig) og Ray Allen (12 stig) fóru á kostum í hálfleiknum og Rajon Rondo stjórnaði umferðinni og gaf 10 stoðsendingar. Boston náði mest ellefu stiga forskoti og var sjö stigum yfir í hálfleik, 53-46.

Miami skoraði 13 af fyrstu 19 stigum seinni hálfleiks og var búið að jafna í 59-59 eftir aðeins tæpar fimm mínútur. Liðin skiptust síðan að hafa forystuna en staðan var 73-73 fyrir lokaleikhlutann. Rajon Rondo hélt Boston inn í leiknum með því að skora 10 stig í leikhlutanum.

Miami byrjaði fjórða leikhlutann vel og fljótlega kom í ljós að Boston-liðið var bensínlaust enda að fá framlög hjá fáum leikmönnum. Miami vann fjórða leikhlutann 28-15 og þar með leikinn með þrettán stigum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×