Íslenski boltinn

Þórsarar slátruðu botnliði Leiknis í Breiðholtinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóhann Helgi skoraði eitt marka Þórs í dag.
Jóhann Helgi skoraði eitt marka Þórs í dag. Mynd/Donall Farmer
Þórsarar gerðu góða ferð í Breiðholtið í dag er liðið burstaði heimamenn í Leikni 5-1 í tólftu umferð 1. deildar karla í dag.

Heimamenn í Leikni komust yfir á 16. mínútu þegar Damir Muminociv skoraði úr vítaspyrnu. Janez Vrenko jafnaði fyrir gestina á 25. mínútu og staðan 1-1 í hálfleik.

Jóhann Helgi Hannesson kom gestunum yfir á 50. mínútu og fyrirliðinn Sveinn Elías Jónsson skoraði þriðja mark Þórs á 65. mínútu.

Staðan versnaði enn frekar fyrir botnlið Leiknis þegar Brynjari Hlöðverssyni var vikið af velli á 69. mínútu. Ármann Pétur Ævarsson skoraði úr vítaspyrnu áður en varamaðurinn Halldór Orri Hjaltason skoraði fimmta og síðasta markið.

Þórsarar eru með 17 stig í 4. sæti deildarinnar eftir sigurinn. Liðið á þó tvo leiki til góða á önnur lið vegna þátttöku liðsins í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Staða Leiknis versnar enn. Lærisveinar Willums Þórs Þórssonar sitja á botni deildarinnar með tíu stig.

Upplýsingar um markaskorara frá Úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×