Íslenski boltinn

Ísland aðeins einu sinni mætt Argentínu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd / Anton
Íslenska karlalandsliðið í handknattleik mætir því argentínska í fyrri æfingaleik liðanna í Kaplakrika í dag klukkan 16.

Ísland og Argentína hafa aðeins einu sinni áður mæst á handboltavellinum. Það var í undankeppni fyrir Ólympíuleikana í Peking árið 2008. Leikið var í Póllandi og hafði Ísland sigur 36-27.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með níu mörk og Snorri Steinn Guðjónsson skoraði níu í leik þar sem íslenska liðið hafði frumkvæðið frá upphafi til enda.

Tíu leikmenn íslenska liðsins, sem eru í hópnum fyrir Ólympíuleikana í ár, voru í liðinu gegn Argentínu. Þeir Alexander Petersson, Arnór Atlason, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Hreiðar Guðmundsson, Ingimundur Ingimundarson, Ólafur Stefánsson, Róbert Gunnarsson, Snorri Steinn Guðjónsson og Vignir Svavarsson.

Leikur Íslands og Argentínu í dag verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×