Kvennalið Þór/KA getur orðið Íslandsmeistari í fótbolta í kvöld þegar liðið heimsækir ÍBV í Eyjum en fyrsti Íslandsmeistaratitilinn mun fara norður vinni þær leikinn á sama tíma og Stjarnan tapar stigum í Mosfellsbænum.
Arna Sif Ásgrímsdóttir hefur spilað vel í sumar og hún var gripin í viðtal inn á heimasíðu Þór/KA í tilefni af leiknum í kvöld. leikurinn verður annars í beinni útsendingu í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport 3 sem og hér inn á Vísi.
„Við erum staðráðnar í að vinna þetta lið því að við höfum aldrei unnið þær. Ég held að það sé kominn tími til að gera það," sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þór/KA í viðtali á heimasíðu Þór.
„Við ætlum ekki að hugsa um stöðuna í deildinni núna heldur fara bara í þennan leik til þess að vinna hann. Við verðum að vinna hann en við þurfum líka aðeins að hefna okkar á þeim. Þær létu okkur líta ansi illa út í fyrri leiknum," sagði Arna Sif.
Það er hægt að sjá allt viðtalið sem og spjall við Karenu Nóadóttur með því að smella á tengilinn hér fyrir ofan.
