Fótbolti

Þór og Víkingur Ó. færast nær Pepsí deildinni

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Topplið fyrstu deildar karla í fótbolta, Þór og Víkingur frá Ólafsvík unnu bæði leiki sína í kvöld þegar 17. umferð deildarinnar lauk með fimm leikjum. Þór sigraði ÍR á útivelli 2-1 og Víkingur Ó. sigraði Hauka á heimavelli sínum 2-0. Fjölnir sem er í þriðja sæti sigraði einnig sinn leik.

Ármann Pétur Ævarsson skoraði bæði mörk Þórs í Breiðholtinu í kvöld en Orri Freyr Hjaltalín minnkaði muninn fyrir ÍR með sjálfsmarki í uppbótartíma en það kom þó ekki að sök. Þór er því enn með eins stigs forystu á Víking Ó. á toppi deildarinnar auk þess að eiga leik til góða.

Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði bæði mörk Víkings Ólafsvíkur gegn Haukum, á 45. og 47. mínútu en Árni Vilhjálmasson leikmaður Hauka fékk að líta rauða spjaldið á 79. mínútu.

Fjölnir lagði Leikni 2-1 og heldur því enn í voninu um að komast upp í deild þeirra bestu. Það var þó Leiknir sem komst yfir þegar Hilmar Árni Halldórsson skoraði strax á 9. mínútu. Haukur Lárusson jafnaði metin á 28. mínútu og Guðmundur Karl Guðmundsson tryggði sigurinn á annarri mínútu seinni hálfleiks.

Víkingur Reykjavík rúllaði yfir Tindastól á heimavelli sínum 5-0. Hjörtur Júlíus Hjartarson skoraði fyrsta og síðasta mark leiksins og í milli tíðinni skoruðu þeir Sigurður Egill Lárusson, Kjartan Dige Baldursson og Aaron Robert Spear.

KA vann stórsigur á Hetti frá Egilsstöðum á Akureyri 4-1. Jóhann Helgason skoraði tvö marka KA auk þess sem Brian Gilmour og Hallgrímur Mar Steingrímsson skoruðu sitt hvort markið. Elmar Bragi Einarsson skoraði fyrir Hött.

ÍR er sem fyrr á botni deildarinnar, stigi á eftir Hetti og Leikni. Tindastóll er þremur stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×