Körfubolti

NBA í nótt: Carmelo fór á kostum - Lakers tapaði fjórða leiknum í röð

Carmelo Anthony fór á kostum og skoraði 30 stig í leiknum fyrir New York þrátt fyrir að hafa aðeins leikið í 22 mínútur af alls 48.
Carmelo Anthony fór á kostum og skoraði 30 stig í leiknum fyrir New York þrátt fyrir að hafa aðeins leikið í 22 mínútur af alls 48. AP
New York Knicks hafði betur í stórleik NBA deildarinnar í nótt þegar liðið lagði LA Lakers 116-107. Carmelo Anthony fór á kostum og skoraði 30 stig í leiknum fyrir New York þrátt fyrir að hafa aðeins leikið í 22 mínútur af alls 48. Anthony snéri sig á ökkla í fyrri hálfleik en hann skoraði alls 20 stig í fyrsta leikhluta.

Gengi Lakers undir stjórn Mike D'Antoni, þjálfara Lakers, hefur alls ekki verið gott. Hann var áður þjálfari New York og var þetta í fyrsta sinn sem hann stýrir liði í Madison Square Garden frá því hann hætti þar störfum. D'Antoni tók við Lakers eftir að Mike Brown var rekinn eftir fimmta deildarleik liðsins á tímabilinu.

Þetta var áttundi sigurleikur New York af síðustu níu og liðið hefur enn ekki tapað leik á heimavelli eftir 9 leiki þar. New York hefur ekki byrjað eins vel á heimavelli frá tímabilinu 1992-1993.

Lakers lék án þeirra Steve Nash og Pau Gasol en þetta var fjórði tapleikur liðsins í röð. Lakers hefur aðeins unnið 9 leiki á þessari leiktíð og tapað 14.

Raymond Felton skoraði 19 stig fyrir New York, Tyson Chandler og J.R. Smith skoruðu 18 stig hvor fyrir New York.

Kobe Bryant skoraði 31 stig og tók 10 fráköst fyrir Lakers, Metta World Peace skoraði 23 og Dwight Howard skoraði 20.

Atlanta – Charlotte 113-90

Devin Harris skoraði 20 stig fyrir Atlanta, Josh Smith bætti við 18 fyrir heimamenn. Charlotte hefur nú tapað 10 leikjum í röð en liðið var með slakasta árangur allra liða í deildinni á síðustu leiktíð. Gerald Henderson skoraði 17 stig fyrir Charlotte og Ramon Sessions bætti við 16 fyrir gestina.

Portland – San Antonio 98-90

Nýliðinn Damian Lillard skoraði 29 stig fyrir Portland. San Antonio tapaði sínum öðrum leik í röð en liðið hefur aðeins tapað 6 leikjum á tímabilinu. Tony Parker skoraði 21 stig fyrir San Antonio.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×