Innlent

Þjórsá í biðflokk og Reykjanes í nýtingu

Fyrirhuguð virkjun við Urriðafoss fer í biðflokk ásamt tveimur öðrum virkjunum í Þjórsá.
Fyrirhuguð virkjun við Urriðafoss fer í biðflokk ásamt tveimur öðrum virkjunum í Þjórsá. Fréttablaðið/anton
Þjórsá verður tímabundið sett í biðflokk í nýrri tillögu um Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Í tillögu verkefnisstjórnar var gert ráð fyrir þremur virkjunum í ánni. Einu breytingarnar sem gerðar verða á tillögunni felast í því að færa svæði úr nýtingarflokki í biðflokk.

Þingflokkar stjórnarflokkanna funduðu um málið í gær, en það hefur verið afgreitt úr ríkisstjórn með þessum breytingum samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Unnið er að því að tryggja meirihluta fyrir tillögunni.

Að auki verða svæði á hálendinu, Hágöngur I og II og Strokköldur, færð í biðflokk.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er gert ráð fyrir að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða varðandi Þjórsá. Ætlunin er að safna frekari gögnum, ekki síst varðandi hugmyndir um að viðhalda stofni villtra laxa í ánni. Orri Vigfússon, stjórnarformaður Verndarsjóðs villtra laxastofna, hefur talað fyrir þeirri hugmynd.

Meðalveiði síðustu ára er um 3.000 laxar, langflestir í net. Orri hefur sagt að hreinsa megi Þjórsá svo hún nýtist í stangveiði og 40 laxar veiddir á stöng skili einu ársverki. Það þýddi 75 ársverk miðað við veidda laxa nú.

Nokkuð hefur verið deilt um svæði á Reykjanesinu, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins stendur ekki til að hrófla við þeim úr nýtingarflokki.

Von er á þingsályktunartillögu þingmanna Suðurkjördæmis um að færa Búlandsvirkjun í nýtingarflokk.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×