Innlent

Olweus er samofinn skólastarfinu

INgibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla
INgibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla
Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla, segir nauðsynlegt að allir skólar séu með einhvers konar eineltisáætlun. Eins og greint var frá í Fréttablaðinu í gær, hefur einelti í þeim skólum sem fylgja Olweusar-áætluninni dregist saman um þriðjung.

„Við völdum Olweusar-áætlunina og munum halda því áfram, því hún er mjög gott tæki til að vinna með," segir Ingibjörg.

Einelti í Hagaskóla mældist 1,6 prósent í síðustu könnun en 4,8 prósent að meðaltali á landsvísu hjá krökkum í 5.-10. bekk grunnskóla. Niðurstöðurnar sýna einnig að þeim nemendum sem líður illa eða mjög illa hefur fækkað úr rúmum 5 prósentum árið 2007 í 3 prósent 2011. Nemendum sem segjast eiga einn eða enga vini í skólunum fer jafnframt fækkandi. Líðan nemenda við það að verða vitni að einelti var einnig könnuð. Þeim nemendum sem vorkenndu þolendum eineltis og vildu koma þeim til hjálpar fjölgaði úr 71 prósenti árið 2007 í 78 prósent 2011.

Ingibjörg segir að foreldrar séu nauðsynlegir í gott og öflugt skólastarf og að þeir sæki kynningarfundi í Hagaskóla mjög vel.

„Olweus er eitt af því sem alltaf er talað um á kynningarfundum og er samofið öllu skólastarfinu. Það er jafn sjálfsagt að fjalla um það og námsárangur." - sþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×