Innlent

Bannið innan ramma laganna

KErið Ákvörðun Kerfélagsins um að banna stjórnvöldum að heimsækja Kerið hefur vakið hörð viðbrögð.
Mynd/Njörður Helgason
KErið Ákvörðun Kerfélagsins um að banna stjórnvöldum að heimsækja Kerið hefur vakið hörð viðbrögð. Mynd/Njörður Helgason
„Þetta er að mínu mati hálfslöpp gestrisni og ekki í takt við það sem Íslendingar hafa hingað til sýnt og við viljum vera þekkt fyrir," segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um ákvörðun Kerfélagsins að meina kínverskum og íslenskum ráðamönnum að skoða náttúruperluna um síðustu helgi. Þeir voru á ferð um svæðið á hópferðabíl um helgina.

Erna bendir þó á að ákvörðunin sé innan ramma laganna, þar sem kveðið er á um að umferð stórra hópferðabíla sé óleyfileg á vissum stöðum á landinu, nema með veittu leyfi rekstraraðila.

Nokkrar undantekningar eru á svonefndum almannarétti er varðar umgengni almennings við íslenska náttúru. Ein slík tilgreinir að þeir sem skipuleggja hópferðir í atvinnuskyni þurfa að hafa samráð við landeigenda og virða umgengnisreglur, að því er fram kemur í tilkynningu Umhverfisstofnunar sem birt var í gær í tilefni umræðunnar undanfarinna daga.

Þó telur stofnunin að landeigendum sé heimilt að setja umgengnisreglur á landi sínu svo sem til að stýra og skipuleggja umferð um svæðið með það að leiðarljósi að hlífa viðkvæmri náttúru fyrir ágangi. „Ég hélt að Kerfélagið myndi kannski launa hinu opinbera styrkina sem það hefur fengið í gegnum tíðina, þar sem opinberir aðilar byggðu upp aðstöðuna þarna," segir Erna. Er þetta í fyrsta sinn sem hún heyrir af máli sem þessu. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×