Innlent

Sagðist særð, móðguð og reið

Bjarni Brynjólfsson
Bjarni Brynjólfsson
Þóra Victoria, aðstoðarflokksstjóri hjá Skrúðgarðyrkjudeild borgarinnar, hefur sent opinbert kvörtunarbréf til yfirmanna Reykjavíkurborgar þar sem hún sakar Bjarna Brynjólfsson, upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar, um aðdróttanir og svívirðingar í sinn garð.

Þóra Victoria segir í bréfi sem hún birti á Facebook í gær að hún sé transmanneskja og að Bjarni hafi ekki virt það þegar hann hringdi í hana á miðvikudag. Hann hafi ekki trúað að hann væri að tala við hana og hafi meðal annars spurt „Hvers son ert þú Þóra?"

„Ég er særð, móðguð og reið og mér finnst alvarlega að mér vegið," segir Þóra í bréfinu. „Aldrei á ævinni hef ég þurft að upplifa aðrar eins aðdróttanir og móðganir." Bjarni segir að um misskilning hafi verið að ræða. „Mér var ekki sagt að hún væri svona transmanneskja. Ég fékk karlmannsrödd í símann og út af þessu skapaðist talsverður misskilningur," segir Bjarni.

„Ég hringdi í hana í hádeginu í dag [í gær] og bað hana afsökunar á þessu," segir Bjarni og bætir við að þau hafi í kjölfarið átt gott spjall.

„Málið var að ég hringdi í hana því ég var að fara að skrifa frétt um blómaskreytingar í Reykjavík." Bjarna hafi verið bent á að tala við Þóru því hún ynni með hópi við gróðursetningu.

„Ég hélt bara að það væri einhver að djóka í mér," segir Bjarni að lokum.- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×